spot_img
HomeFréttir?Íslenskir dómarar klassa betri en þeir þýsku"

?Íslenskir dómarar klassa betri en þeir þýsku”

14:18

{mosimage}

Birgir Örn var með stærri mönnum í boltanum á Íslandi, en hér er hann eins og stráklingur við hliðina á 222cm félaga sínum.

 

Birgir Örn Birgisson fyrrum leikmaður Keflavíkur og Þórs frá Akureyri kvaddi íslenskan körfuknattleik árið 2001. Þá hélt hann ásamt eiginkonu sinni, bolvísku söngdísinni Sigrúnu Pálmadóttur, til Bonn í Þýskalandi, en Sigrún fékk þar vinnu við óperuhúsið í borginni. Saman eiga þau tveggja ára son Magnús Baldvin. Birgir hafði aðeins fengist við þjálfun yngri flokka hjá Keflavík, en hafði ekki tekist á við þjálfun meistaraflokka, fyrr en hann flutti til Þýskalands.

„Mitt fyrsta þjálfarastarf úti var hjá liði sem heitir SG Sechtem en með því liði spilaði ég í 2. deildinni (2 Bundesliga Nord) við góðan orðstír.  Fyrsta árið sem þjálfari var 2003 og var ég spilandi þjálfari. Allt gekk eins og í lygasögu, við unnum deildina,  2. svæðisdeild ( 2 Regionalliga), með töluverðum yfirburðum og færðumst upp um deild,  í 1. svæðisdeild (1 Regionalliga), sem er sama deild og Írinn hjá Keflavík kemur úr,“ segir Birgir og segist  „bara” hafa verið þjálfari þá þar sem Þjóðverjar hafi ekki mikla trú á spilandi þjálfurum.  

„Við vorum “spútnik“ lið deildarinnar í upphafi og vorum ósigraðir eftir fyrstu 7 leikina, nokkuð sem enginn hafði átt von á. En þá lentum við í mikilli meiðslahrinu og allt gekk á afturfótunum og við lentum skyndilega í fallbaráttu sem okkur tókst svo reyndar að vinna úr og enduðum í 8. sæti af 14 liðum. Nokkuð sem maður hefði fyrirfram verið ánægður með en eftir góða byrjun vildi maður meira,“segir Birgir og hver getur ekki verið sammála honum með það.  Liðið komst í undanúrslit í bikarkeppninni og var aðeins tveimur sekúndum frá því að komast í úrslitaleikinn. Birgir var fjögur ár hjá þessu liði, tvö hin seinni sem þjálfari. 

Þjálfar tvö kvennalið og eitt karlalið

En hvar er Birgir að þjálfa í dag? „Í dag er ég að þjálfa lið sem heitir Bg Rentrop og er stærsta félagið í Bonn er að kvennakörfu kemur.  Ég stjórna þar þremur liðum, tveimur kvenna og einu karlaliði,“ segir Birgir en kvennaliðin sem hann stjórnar eru í 1 Oberliga, 4. deild ef talið er beint niður frá 1. deild en samtals eru u.þ.b. 18 deildir í gangi og í 1 Bezirksliga, eða 6. deild. Karlaliðið er líka í 1 Oberliga en það er 5. deild ef talið er beint niður frá 1. deild hjá körlunum en þar eru 33 deildir. „Menn verða að gera sér grein fyrir að í Þýskalandi búa um 80 milljónir manns“, segir Birgir, nokkuð sem nauðsynlegt er að taka með í reikninginn í samanburði við okkar ástkæra Frón.  

Birgir segir að væntingar til tímabilsins séu mismunandi eftir liðum, kvennaliðið sem spilar í 1 Oberliga sé blanda af eldri leikmönnum sem hafi spilað í efstu deild og yngri leikmönnum sem stefni að því að komast í efstu deild.  „Þar á bæ er mikilvægt að yngri leikmennirnir fái nægan spilatíma og læri að bera ábyrgð. Við erum sem stendur í 3. sæti með 4-1 vinningshlutfall.  Seinna kvennaliðið mitt er nær eingöngu skipað ungum leikmönnum sem ná ekki að komast í aðalliðin í sínum árgangi, en vilja halda áfram að spila.  Þetta lið var eiginlega „ruslakistan” þegar ég tók við því, en eftir tveggja ára harða vinnu þar sem stúlkurnar gáfu 120% á hverri einustu æfingu og báðu endalaust um aukaæfingar, eru þær heldur betur búnar að slá í gegn innan félagsins og vekja mikla athygli, því þær hafa breytt sínu vinningshlutfalli á 2 árum úr 2-20 í 21-1, færðust upp um deild í vor og eru sem stendur í 6. sæti í 12 liða deild,“ segir Birgir og einhvern veginn sýnist blaðamanni körfunnar.is að Birgir hafi þarna náð að smita stúlkurnar í liðinu af þeim eldmóði og baráttu sem einkenndu hann sem leikmann. Hann heldur áfram; „Þetta er mitt fyrsta ár með karlaliðið og þar eru væntingar miklar og stefna sett á að vera í einu af fjórum efstu sætunum eftir að hafa lent  í því 8. í fyrra.  Í augnablikinu erum við í því 6. með vinningshlutfallið 3-2. Aðalvandamál okkar er að Þjóðverjar eiga nóg af stórum leikmönnum en fáa leikstjórnendur, þannig að það er spurning hvort ég bjalli ekki bara í hann Fal,“ segir Birgir og vísar þar í hinn knáa fyrrum liðsfélaga sinn í Keflavík og landsliðinu, Fal Harðarson.  

„Hraunar“ ekki yfir dömurnar

En hvaða munur er á því að þjálfa konur og karla? „Erfið og viðkvæm spurning“, segir Birgir.  „Mín reynsla með „mínar” dömur er sú að maður þarf að nota „fallega” gagnrýni meðan maður getur „hraunað“ yfir karlana.  Hjá dömunum er liðið reyndar alltaf í fyrirrúmi og svo þeirra eigið egó á eftir en hjá körlunum er EGÓIÐ númer eitt og svo liðið, því miður“, segir hann.  

{mosimage}

Blaðaúrklippa þar sem sjá má Birgi Örn með félögum sínum í liði SG Sechtem eftir sigur þeirra í 2. svæðisdeildinni.

Er í „venjulegu“ starfi einnig

Þjálfun var aðalstarf Birgis framan af en svo þegar sonur þeirra hjóna fæddist vildi hann minnka við sig og fara í venjulegt starf og körfuna með sem auka. „En nú er svo komið að ég er eiginlega í fullu starfi sem þjálfari en er ennþá að vinna „venjulegt” starf með“, segir Birgir og flestum þætti það nú full vinna að stýra þremur liðum án þess að vera í „real job“ líka, eins og kaninn kallar það. 

Birgir segist ekki hafa hugsað út í það hvort að þjálfun geti orðið hans aðalstarf í framtíðinni en segir að þegar hann hugsi um það, sé það líklega draumurinn. En hvaða kosti telur hann sig búa yfir sem þjálfari? „Ég er rólegur og yfirvegaður, er fljótur að sjá hvaða karakter leikmenn hafa að geyma.  Hef reyndar heyrt frá mönnum utan liðsins að ég gefi leikmönnum mikið sjálfstraust og trú á sjálfan sig“, segir hann. Hann segir að helstu veikleikar hans séu líklega þeir að þurfa að sætta sig við að trúa því að leikmenn setji sína eigin hagsmuni ofar en hagsmuni liðsins, en að öðru leyti telur hann sig ekki rétta manninn til að svara þessari spurningu.  

Engir aðstoðarþjálfararBirgir hefur enga aðstoðarþjálfara. „Nei ég vinn alveg einn og vil eiginlega hafa það þannig þar sem ég  tel mig geta gert hlutina betur en aðrir en þeir sem ég hef kynnst hérna úti.  Og svo er íslensk körfuboltahugsun aðeins öðruvísi en sú þýska. „Ég er mikið fyrir ákafa (harða) maður á mann vörn, sem kemur eflaust mjög á óvart J, segir Birgir „en er svo með 3-2 svæði í bakhöndinni sem hefur reynst mjög vel því það afbrigði sem mín lið spila eru frábrugðin þeim sem liðin hérna úti þekkja“, segir hann aðspurður um hvernig varnarleik hann noti hjá liðum sínum. Það eru eflaust margir sem muna eftir Birgi í leikjum hér heima, lemjandi á mönnum í teignum. Hann er því eflaust rétti maðurinn til að innprenta þann ákafa sem þarf í varnarleik körfuknattleiksliða.  

Leikkerfið „Ísland“ geysivinsælt

En hvað segir hann um sóknarleikinn? „Hvert einasta undirbúningstímabil njörva ég leik minna manna niður og læt þá spila kerfisbundið þannig að allir leikmenn liðsins hafi sínar eigin hlaupaleiðir og annarra á hreinu. Er þá væntanlega óþolandi því ég stoppa leik liðsins þá mikið og fer í smáatriði.  Þegar tímabilið fer að byrja þá losa ég tökin og bið menn að hugsa líka þegar þeir eru inná vellinum J  ekki bara hlaupa sjálfkrafa þær hlaupaleiðir sem þeir hafa æft heldur skoða líka hvað vörnin gerir og bregðast þá rétt við.  Spila mikið 3á3  þannig að menn þekki betur inná hvern annan. Svo er ég reyndar með eitt „kerfi” sem heitir Ísland og er geysivinsælt en það er bara frjáls bolti“, segir Birgir.   

Hvernig skyldi ganga að ná að manna liðin spyr blaðamaður, en líklega er það varla vandamál í 80 milljón manna landi eða hvað? „Ég var svo heppinn í upphafi að einn vinur minn sem spilaði með mér reddaði mér mönnum fyrstu 2 árin en nú er svo komið að leikmenn hringja í mig og mitt félag og spyrja hvort þeir megi koma á æfingar“, segir Birgir og líklega er þetta glöggt merki um hvaða árangri hann hefur náð þarna úti og með hvaða augum leikmenn líta á hann.  

Íslenskir dómarar klassa betri en þeir þýsku

Hvað með íslenska boltann, fylgist þú með honum? „Já ég fylgist ansi mikið með körfunni á Íslandi og þá aðallega í gegnum netið.  Fer reglulega á heimasíður einstakra liða og fæ svo tölvupóst frá KKÍ“, segir Birgir.  Hann vill nota tækifærið og benda íslenskum körfuboltamönnum á að dómarar á Íslandi séu ekki svo slæmir eins og menn vilji oft meina og ef hann miði þá við dómarana í Þýskalandi séu þeir íslensku fyrsta flokks. Ekki slæmur dómur það. „Ég held bara að þeir fái engan vinnufrið. Ég hef séð nokkra leiki á undanförnum árum og það er hlægilegt að sjá hvernig stjórnarmenn og einstaka þjálfarar haga sér á hliðarlínunni, reitandi á sér hárið og dettandi í gólfið og það besta er þegar dómarinn stoppar leikinn til að binda enda á þessa vitleysu þá er hann rakkaður niður á heimasíðu viðkomandi félags daginn eftir og sakaður um að vilja vera í aðalhlutverki“, segir Birgir ómyrkur í máli.  „Ég held að þar liggi vandi málsins, í óábyrgum skrifum á heimasíðum félaganna“, segir hann.  En hvernig má það vera? „Jú, hvernig eiga leikmenn og sérstaklega yngri flokka leikmenn að bera einhverja virðingu fyrir dómarastéttinni þegar þeir lesa stöðugt að þeir séu lélegir og ómögulegir“, segir Birgir og er hvergi hættur: „Og að líkja dómurum við beljur sem nýbúið er að sleppa út að vori til þótti mér nú alveg fyrir neðan allar hellur“, segir hann og minnist slíkra skrifa á heimasíðu eins félags. „Svo koma þessir leikmenn í leik og telja sig í fullum rétti til að hrauna yfir þessa dómara, því það sem stendur á prenti hlýtur að vera satt!!!  eða hvað“, segir Birgir og segir það ekki af vorkunnsemi að íslenskir dómarar fái stöðugt verkefni úti í Evrópu.   

Í Þýskalandi eiga þjálfarar að meta dómara eftir leiki og rökstyðja mál sitt. „Það er ekkert mál eftir leik að „segja“ að dómararnir hafi verið lélegir en svo þegar kemur út í það að rökstyðja mál sitt og „skrifa” af hverju þeir voru lélegir og hvað þeir gerðu svona vitlaust, lítur málið stundum öðruvísi  út.  Þetta veitir líka visst aðhald og dómarar geta þá líka séð hvort það séu ákveðnir hlutir sem þeir þurfi að laga og líka hvað þeir geri gott.  Til að fá að starfa sem þjálfari hérna úti þarf ég að hafa þjálfararéttindi (A-B-C-D kerfi), en mitt fyrsta verkefni áður en ég fór að afla mér réttinda var að fara á dómaranámskeið og taka dómarapróf.  Hversu margir þjálfara hafa reglunar á hreinu?“, spyr Birgir og ekki laust við að blaðamanni finnist nokkuð til í þessum vangaveltum hans.  

Aldrei að vita

En hvað með Ísland, ertu á leiðinni heim og langar þig að þjálfa á heimavelli?

„Við munum væntanlega búa áfram hérna úti þó maður viti það aldrei.  Einhvern tímann munum við koma heim og eins og staðan er í dag get ég alveg hugsað mér að koma heim og halda áfram að þjálfa“, sagði Birgir Örn Birgisson að lokum.

 

[email protected]

 

Myndir: Birgir Örn Birgisson

Fréttir
- Auglýsing -