Undir 18 ára lið drengja leikur þessa dagana á Evrópumóti í Skopje í Makedóníu. Tékkland, Makedónía, Holland, Ísrael og Lúxemborg eru með Íslandi í riðli og er þremur leikjum lokið.
Ísland er enn án sigurs eftir þrjá daga. Fyrsti leikur liðsins var gegn heimamönnum í Makedóníu. Var sá leikur hnífjafn og réðst á lokasprettinum. Makedónía hafði þó sigur að lokum 60-62 þar sem Sigvaldi Eggertsson var stigahæstur með 18 stig.
Leikur tvö var því miður ekki eins jafn þar sem Ísland lennti snemma undir gegn Tékklandi og náði aldrei að krafsa í forystuna. Lokastaðan 95-73 fyrir Tékklandi en Hilmar Smári Henningsson var stigahæstur með 19 stig.
Í gær tapaði Ísland svo stórt gegn Hollandi 90-68. Ísland leiddi hinsvegar með fimm stigum í hálfleik en leikur liðsins hrundi líkt og spilaborg í seinni hálfleik. Arnór Sveinsson var stigahæstur hjá Íslandi með 21 stig.
Ísland er þar með í neðsta sæti riðilsins eftir þrjá leiki og án sigurs. Neðstu tvö liðin í riðlinum leika um sæti 17-24 á mótinu en eitt lið fellur niður í C-deild. Í dag er frídagur hjá Íslenska liðinu en það mætir Lúxemborg á morgun kl 19:00 að íslenskum tíma. Lúxemborg er með einn sigur og var það gegn Makedóníu en þar fyrir utan tapað öllum leikjum sínum ansi stórt.
Nánari upplýsingar um mótið má finna á heimasíðu þess hér. Upptöka af leiknum gegn Hollandi má finna hér að neðan: