Í fyrramálið heldur íslenska landsliðið til Kína í æfingaferð í boði kínverska körfuknattleikssambandsins. Liðið leikur tvo leiki gegn heimamönnum. Héðan frá Íslandi heldur hluti leikmanna og fararstjórn til móts við þá sem eru erlendis og sameinast allir í Stokkhólmi áður en haldið er til Kína. www.kki.is greinir frá.
Kínverska körfuknattleikssambandið greiðir allan kostnað vegna fararinnar, það er öll flug, ferðalög milli keppnisstaða, gistingu og fæði. Þetta er í annað sinn á 6 árum sem kínverska körfuknattleikssambandið býður því íslenska til Kína. Kína bar sigur á Íslandi í báðum leikjunum í ágúst 2005.
Kína lítur á Ísland sem góðan kost í sínum undirbúningi fyrir Asíuleikana sem fara fram seinna í september þar sem leikstíll okkar er ekki ósvipaður og hjá sumum af andstæðingum kínverska liðsins á leikunum. Markmið Kína er að komast á Olympíuleikana í London 2012.
Það verður talsvert ferðalag á hópnum innan Kína þar sem m.a. þarf að fljúga í tveimur flugum til að komast til borgarinnar þar sem seinni leikurinn fer fram.
Fyrri leikur liðsins fer fram föstudaginn 9. september í Xuchang City en seinni leikurinn fer fram sunnudaginn 11. september í Loudi City.
Tvær breytingar hafa orðið á liðinu frá því liðið fór á Norðurlandamótið í síðasta mánuði en þeir Hörður Axel Vilhjálmsson og Haukur Helgi Pálsson gátu ekki farið með liðinu til Kína og hafa þeir Ægir Þór Steinarsson og Jón Ólafur Jónsson verið valdir í þeirra stað.
Tímamismunur er 9 klukkustundir en KKÍ mun birta fréttir og myndir úr ferðinni á kki.is og fleiri upplýsingar þegar nær dregur leikjunum.
Liðið er skipað eftirtöldum leikmönnum:
4 • Brynjar Þór Björnsson • Jamtland, Svíþjóð
Hæð 190 cm • Fæddur ‘88 • 13 landsleikir
5 • Jón Ólafur Jónsson • Snæfell
Hæð 198 cm • Fæddur ‘81 • Nýliði
6 • Jakob Sigurðarson • Sundsvall, Svíþjóð
Hæð 192 cm • Fæddur ‘82 • 48 landsleikir
7 • Finnur Atli Magnússon • KR
Hæð 205 cm • Fæddur ‘85 • 6 landsleikir
8 • Hlynur Bæringsson • Sundsvall, Svíþjóð
Hæð 200 cm • Fæddur ‘82 • 51 landsleikir
9 • Jón Arnór Stefánsson • CAI Zaragoza, Spáni
Hæð 196 cm • Fæddur ‘82 • 51 landsleikir
10 • Helgi Már Magnússon • Uppsala, Svíþjóð
Hæð 197 cm • Fæddur ‘82 • 66 landsleikir
11 • Ólafur Ólafsson • Grindavík
Hæð 190 cm • Fæddur ‘90 • 4 landsleikir
12 • Pavel Ermolinski • Sundsvall, Svíþjóð
Hæð 200 cm • Fæddur ‘87 • 18 landsleikir
13 • Ægir Þór Steinarsson • Fjölnir / Newberry College
Hæð 188 cm • Fæddur ‘88 • Nýliði
14 • Logi Gunnarsson • Solna, Svíþjóð
Hæð 190 cm • Fæddur ‘81 • 80 landsleikir
15 • Sigurður Gunnar Þorsteinsson • Grindavík
Hæð 204 cm • Fæddur ‘88 • 25 landsleikir
Þjálfari: Peter Öqvist
Aðstoðarþjálfari: Helgi Jónas Guðfinnsson
Aðstoðarþjálfari: Pétur Már Sigurðsson
Sjúkraþjálfari: Haukur Þór Sveinsson
Fararstjórar: Eyjólfur Þór Guðlaugsson og Friðrik Ingi Rúnarsson
Mynd/ Ægir Þór Steinarsson er í hópnum.