Lið New Orleans Pelicans hefur ráðið Íslandsvininn Stan Van Gundy til þess að þjálfa liðið á komandi tímabili í NBA deildinni. Félagið hafði áður rekið Alvin Gentry nú í ágúst sem hafði verið með liðið síðustu fimm tímabil.
Van Gundy er frekar reyndur þjálfari í deildinni, sem hefur verið aðalþjálfari nokkurra liða í deildinni frá síðustu aldamótum, Miami Heat, Orlando Magic og Detroit Pistons.
Pelicans hafa á að skipa mjög ungu og efnilegu liði, þar sem að Zion Williamson fer fremstur ásamt stjörnuleikmanninum Brandon Ingram. Áhugavert verður að sjá hver áhrif Van Gundy verða á liðið, en hann hefur oftar en ekki náð að setja saman góðar frammistöður hjá þeim liðum sem hann hefur þjálfað.
Van Gundy kom til Íslands á síðasta ári ásamt þjálfaranum Ettore Messina, þar sem þeir voru fyrirlesarar á þjálfaranámskeiði hjá KKÍ. Karfan náði í skottið á honum eftir að hann hafði séð sigurleik Íslands gegn Sviss í Laugardalshöllinni.