Valur lagði Keflavík í Blue höllinni í kvöld í lokaleik 15. umferðar Bónus deildar karla, 70-81.
Eftir leikinn eru liðin jöfn að stigum með 14 í 5. til 9. sæti deildarinnar.
Heimamenn í Keflavík voru betri á upphafsmínútum leiksins og leiddu með sex stigum að fyrsta fjórðung loknum, 22-16. Í öðrum leikhlutanum láta þeir kné fylgja kviði og ná mest 16 stig forystu í öðrum leikhlutanum. Íslandsmeistarar Vals svara því þó nokkuð vel á lokamínútum hálfleiksins og er munurinn aðeins 7 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 44-37.
Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Hilmar Pétursson með 16 stig, en í öllu jafnara liði Vals var Adam Ramstedt stigahæstur með 9 stig.
Valsmenn byrja seinni hálfleikinn af miklum krafti. Vinna þriðja fjórðung með 10 stigum og eru komnir með forystuna fyrir lokaleikhlutann, 53-56. Við það byggja þeir í þeim fjórða og fara mest með forskot sitt í 11 stig, en heimamenn ná ágætis áhlaupi á lokamínútunum sem skilar þeim þremur stigum frá þeim er um þrjár mínútur eru til leiksloka. Lengra komast heimamenn þó ekki og Valur vinnur leikinn að lokum nokkuð örugglega, 70-81.
Atkvæðamestir fyrir heimamenn í leiknum voru Hilmar Pétursson með 16 stig og Ty Shon Alexander með 16 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar.
Fyrir Val var það Kristinn Pálsson sem dró vagninn með 20 stigum og 10 fráköstum. Honum næstur var Kristófer Acox með 10 stig, 12 fráköst og 5 stoðsendingar.