spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaÍslandsmeistararnir sluppu með eins stigs sigur gegn nýliðunum

Íslandsmeistararnir sluppu með eins stigs sigur gegn nýliðunum

Keflavík lagði nýliða Tindastóls með minnsta mun mögulegum í Blue höllinni í kvöld í 7. umferð Bónus deildar kvenna, 90-89.

Keflavík er eftir leikinn í 2.-3. sæti deildarinnar með 10 stig líkt og Njarðvík. Stólarnir eru hinsvegar í 4.-8. sætinu með 6 stig líkt og Stjarnan, Grindavík, Hamar/Þór og Þór Akureyri.

Óhætt er að segja að heimakonur hafi sloppið með skrekkinn í leik kvöldsins, en lengst af voru það gestirnir úr Skagafirði sem leiddu. Mestur var munurinn 14 stig í fyrri hálfleiknum, en frá hálfleiksksiptum hófu heimakonur að vinna forskotið niður. Forystunni náðu þær svo í upphafi fjórða leikhlutans og tókst þeim að hanga á henni út leikinn. Lokasekúndurnar voru þó æsispennandi og líkt og tölurnar gefa til kynna mátti ekki mikið útaf bregða fyrir heimakonur í kvöld.

Stigahæstar fyrir Keflavík í leiknum voru Jasmine Dickey og Thelma Dís Ágústsdóttir með 24 stig hvor. Fyrir nýliða Tindastóls var Oumoul Khairy Sarr Coulibaly stigahæst með 28 stig og Mélissa Diawakana bætti við 23 stigum.

Næsti leikur Tindastóls er þann 26. nóvember gegn Hamar/Þór í Hveragerði, Keflavík leikur svo degi seinna 27. nóvember gegn Haukum í Ólafssal.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -