Valur lagði Stjörnuna í 12. umferð Bónus deildar karla í kvöld. Eftir leikinn er Stjarnan í efsta sæti deildarinnar með 20 stig á meðan Valur er í 8.-10. sætinu með 10 stig.
Fyrir leik
Stjarnan verið besta lið deildarinnar fyrri hluta tímabils. Í efsta sætinu einum sigurleik á undan Tindastól sem voru í öðru sætinu. Íslandsmeistarar Vals hinsvegar verið gífurleg vonbrigði það sem af er tímabili og voru fyrir áramótin versta lið Íslandsmeistara á fyrri hluta tímabils frá stofnun deildarinnar.
Gangur leiks
Íslandsmeistarar Vals hófu leikinn mun betur og voru skrefinu á undan nánast allan fyrsta fjórðunginn. Stjarnan fékk þó nokkur skot til að detta undir lokin og með ótrúlegum flautuþrist frá Hilmari Smára Henningssyni munar aðeins stigi á liðunum fyrir annan, 19-18. Í öðrum fjórðungnum skiptast liðin á snöggum áhlaupum þar sem lengst af má þó varla sjá á milli þeirra. Undir lok hálfleiksins nær Stjarnan nokkrum stoppum og Hilmar Smári heldur áfram frábærum leik sínum á sóknarhelmingi vallarins og er Stjarnan sjö stigum yfir þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 42-49.
Svo virðist sem Ægir Þór Steinarsson leikmaður Stjörnunnar hafi meiðst í fyrri hálfleiknum, en hann átti ekki eftir að koma meira við sögu í leiknum í seinni hálfleik. Samkvæmt þjálfara Stjörnunnar Baldri Þór Ragnarssyni fékk Ægir högg í fyrri hálfleiknum og gat því ekki leikið í þeim seinni.
Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Taiwo Badmus með 10 stig á meðan Hilmar Smári Henningsson var kominn með 21 stig fyrir Stjörnuna.
Bæði lið hefja seinni hálfleikinn af miklum krafti og virðast það vera varnir beggja liða sem hafa vinninginn í flest skipti. Valur nær hægt og bítandi að vinna niður það nauma forskot sem Stjarnan er með fyrir lok þess þriðja og eru heimamenn þremur stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 65-62.
Í upphafi þess fjórða fá heimamenn í Val nokkra þrista til að detta fyrir sig og eru komnir með 9 stiga forystu þegar fimm mínútur eru til leiksloka, 75-66. Undir lokin nær Stjarnan þó að minnka muninn og fá þeir nokkur tækifæri til þess að jafna eða vinna leikinn á lokamínútunni. Allt kemur þó fyrir ekki og standa Íslandsmeistararnir uppi sem sigurvegarar, 83-79.
Kjarninn
Miklu, miklu, miklu betra frá Val núna heldur en það var lengst af fyrir áramót. Vissulega eru þeir enn neðarlega í töflunni, en sigur þeirra gegn Tindastóli í síðasta leik fyrir jólafrí og frammistaðan í dag vita á gott fyrir framhaldið hjá liðinu. Stjarnan aftur á móti getur farið að hafa áhyggjur, í fyrsta skipti í vetur. Sýndu alvöru veikleikamerki þegar þeir þurftu að spila aftur og aftur á móti vel skipulagðri vörn Íslandsmeistara Vals í kvöld. Að Hilmari Smára frátöldum fengu þeir næstum ekkert sóknarlega frá sínum lykilleikmönnum.
Atkvæðamestir
Atkvæðamestir fyrir Val í dag voru Taiwo Badmus með 23 stig, 3 fráköst og Kári Jónsson með 16 stig og 7 fráköst.
Fyrir Stjörnuna var Hilmar Smári Henningsson atkvæðamestur með 28 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar. Honum næstur var Shaquille Rombley með 9 stig og 6 fráköst.
Hvað svo?
Bæði lið leika næst komandi föstudag 10. janúar, en þá fær Stjarnan nýliða KR í heimsókn í Umhyggjuhöllina og Íslandsmeistarar Vals mæta Þór í Þorlákshöfn.
Myndasafn (væntanlegt)