spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÍslandsmeistararnir með bakið upp að vegg

Íslandsmeistararnir með bakið upp að vegg

Grindavík lagði Íslandsmeistara Vals í N1 höllinni í kvöld í þriðja leik átta liða úrslita Bónus deildar karla.

Grindvíkingar eru því komnir með 2-1 forystu í einvíginu og freista þess að komast áfram í undanúrslitin með sigri í fjórða leik liðanna, en hann fer fram í Smáranum komandi mánudag.

Fyrri hálfleikur leiks kvöldsins var hin besta skemmtun. Mikið jafnræði var á með liðunum í upphafi og munaði aðeins stigi á liðunum eftir fyrsta leikhluta, 16-15. Svoleiðis hélst leikurinn meira og minna fram að lokum fyrri hálfleiks, en þegar liðin héldu til búningsherbergja munaði enn aðeins einu stigi á þeim, 41-40.

Þrátt fyrir þennan litla mun sem var á liðunum voru það gestirnir úr Grindavík sem áttu sterkari áhlaup. Það voru þeir sem komust skrefum á undan áður en heimamenn í Val minnkuðu muninn.

Stigahæstir í hálfleik voru Joshua Jefferson með 15 stig fyrir Íslandsmeistara Vals á meðan Daniel Mortensen var kominn með 13 stig fyrir Grindavík.

Upphaf seinni hálfleiksins er svo gríðarlega jafnt, en undir lok þess þriðja nær Grindavík að vera aðeins á undan, 52-56. Hægt og rólega ná þeir svo að byggja sér upp forystu í fjórða leikhlutanum og er leikurinn ekkert sérstaklega jafn á lokamínútunum þó munurinn hafi ekki verið það mikill. Valsmenn reyna hvað þeir geta til að skjóta sér inn í leikinn, en allt kemur fyrir ekki. Niðurstaðan að lokum gífurlega sterkur sigur Grindavíkur, 75-86.

Atkvæðamestir í liði heimamanna í kvöld voru Joshua Jefferson með 28 stig, 6 fráköst og Kristinn Pálsson með 21 stig og 5 fráköst.

Fyrir Grindavík var DeAndre Kane atkvæðamestur með 23 stig, 10 fráköst og 6 stoðsendingar. Honum næstur var Daniel Mortensen með 15 stig og 18 fráköst.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -