spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÍslandsmeistararnir leiða eftir spennutrylli

Íslandsmeistararnir leiða eftir spennutrylli

Veislan er byrjuð, 8 liða úrslit í Bónusdeild karla hófust í kvöld, með tveimur leikjum, annar þessara leikja var í N1 höllinni þegar Íslands- og bikarmeistarar Vals tóku á móti Grindavík. Liðinu sem þeir unnu einmitt svo eftirminnilega fyrir rúmu ári síðan.

Það mátti búast við hörkuleik, liðin í 4. og 5. sætinu í deildinni. Liðin unnu sinnhvort leikinn í deildinni, bæði á sínum heimavelli. Það telst þó varla marktækt, þegar Grindavík vann voru Valsmenn í djúpum dal og þegar Valur vann voru bæði Óli Óla og Kane hvíldir.  Valsmenn unnu svo Grindavík í bikarnum.

Leikurinn sjálfur var frábær auglýsing fyrir úrslitakeppnina. Hörkuleikur þar sem Valur hafði undirtökin alveg þangað til að Kári fór út af meiddur, undir lokin gat þetta dottið hvoru megin sem var, en að lokum voru það Valsmenn sem hrósuðu sigri 93-89.

Fyrstu tvær mínúturnar voru bæði lið með þandar taugar, síðan hittu bæði lið hvert þriggja stiga skotið á fætur öðru, Badmus með tvær.  Valsmenn náðu stoppum og Kári tók einn lengst úr djúpinu. Það var töluverður hraði og áhorfendur vel með á nótunum.  Kane var týpískur Kane, reynand að espa Valsmenn upp. Leikhlutinn í miklu jafnvægi, þótt Valsmenn voru alltaf með forystuna, staðan eftir fyrsta leikhluta 29-26 og bæði lið með um 50% þriggjastiga hlutfall.

Það var áfram mikið jafnræði með liðunum í öðrum leikhluta, Grindavík komst yfir í fyrsta skiptið, en Valur svaraði með tveimur þriggja stiga körfum.  Valsmenn voru aðeins með undirtökin þó það sé varla hægt að tala um það, en þeir héldu forystunni og juku hana hægt og mjög rólega, þegar Kári tók einn ökklabrjót og negdli niður einum þristi var forystan skyndilega kominn í 12 stig, sem er vissulega ekki mikið, en nóg til að Grindavík henti í leikhlé. Kane trompaðist þegar ekkert var dæmt þegar það virtist vera augljós villa, þriggja stiga karfa frá Joshúa í andlitið. Síðasta mínútan var mikill hasar en Valsmenn fóru með 55-45 stiga forystu í hálfleikinn.

Valsmenn léku á alls oddi í upphafi seinni hálfleiks, gekk flest all upp hjá þeim og juku þeir forystuna fyrstu mínúturnar. En Grindavík eru ekki þekktir fyrir að leggja árar í bát og fóru að saxa á forskotið. Þegar leikhlutinn var hálfnaður lá Kári Jóns óvígur á gólfinu og var hann borinn útaf. Þetta virtist slá Valsmenn útaf laginu og Grindavík dró hratt á þá. Undir lokin fékk Kane eitthvað í annan fótinn og fór út af en kom inná skömmu síðar. Valsmenn náðu vopnum sínum aftur og leiddu fyrir síðasta leikhlutann 79-70.

Liðin skiptust á að skora í 4. leikhluta, Pargo virtist vera mættur í vinnuna eftir frekar rólegan leik hingað til. Það var mikil barátta og mikil spenna allan leikhlutann, Grindavík var ívið sterkari og sótti hart að forystu Valsmanna. Síðustu mínuturnar voru óbærilega spennandi. Grindavík gat komist yfir þegar 13 sekúndur voru eftir en Kane klikkaði á erfiðu skoti. Valsmenn tóku þetta svo á vítalínunni og unnu 93-89.

Hjá Valsmönnum var Badmus stighæstur með 28 stig, Joshua kom næstur með 18 og Kristinn Páls 15.  Hjá Grindavík var Kane með 22, Prago með 22 og Kristófer Breki átti sinn besta leik í langan tíma var með 18 stig

Leikur tvö fer fram í Smáranum, sunnudaginn 6. apríl klukkan 20.00

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -