Stjarnan lagði Keflavík í kvöld í fyrstu umferð Bónus deildar kvenna, 71-64. Stjarnan því komin með einn sigur í deildinni á meðan að Keflavík þarf að bíða allavegana fram í næstu umferð eftir sínum fyrsta.
Fyrir leik
Bæði lið fóru í gegnum nokkrar breytingar í sumar. Bæði skiptu þau um þjálfara og í leik kvöldsins vantaði þau bæði lykilleikmenn. Hjá Keflavík voru t.a.m. Sara Rún Hinriksdóttir, Birna Valgerður Benónýsdóttir og Emelía Ósk Gunnarsdóttir í borgaralegum klæðum. Þá vantaði í lið Stjörnunnar Ísoldi Sævarsdóttur sem lagði skóna á hilluna á dögunum.
Gangur leiks
Keflavík hóf leik kvöldsins af miklum krafti og settu fyrstu 12 stig leiksins. Stjarnan svara því ágætlega í framhaldinu, en þær ná þó ekki að vinna á foskotinu, sem er 13 stig að lokum þess fyrsta, 13-26. Með miklum krafti keyra heimakonur sig aftur inn í leikinn í öðrum leikhlutanum og eru leikar jafnir þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 35-35.
Stigahæstar heimakvenna í fyrri hálfleiknum voru Kolbrún María Ármannsdóttir og Denia Davis Stewart með 11 stig hvor. Fyrir gestina úr Keflavík var Jasmine Dickey komin með 17 stig.
Stjarnan hefur seinni hálfleikinn svo af sama krafti og þær kláruðu þann fyrri. Byggja sér upp þægilega forystu í þriðja leikhlutanum og eru 10 stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 58-48. Í honum ná Íslandsmeistarar vopnum sínum aftur og vinna niður forskotið hægt en örugglega og er munurinn aðeins stig þegar tvær og hálf eru eftir, 65-64. Stjarnan gerir svo ansi vel á þessum lokamínútum, halda gestunum stigalausum og vinna að lokum mikinn baráttusigur, 71-64.
Kjarninn
Keflavíkurliðið mætti alls ekki tilbúið inn í þá baráttu sem heimakonur í Stjörnunni buðu upp á í leik kvöldsins. Gáfu heimakonum alltof mörg tækifæri alltof oft í leiknum, tapa frákastabaráttunni nokkuð örugglega. Vissulega byrjuðu þær leikinn vel, en um leið og Stjarnan fór að rótera meira á bekkinn, fleygja sér á alla lausa bolta og virkilega berjast fyrir þessu var eins og þær ættu engin svör. Eins og þær gætu ekki barist fyrir þessu. Það skal þó ekki tekið alveg frá Stjörnunni, sem að sama skapi auðvitað mætti með blóð á tönnunum síðustu þrjá leikhluta leiksins og sótti þennan sigur.
Atkvæðamestar
Fyrir heimakonur var Denia Davis Stewart atkvæðamest með 21 stig og 28 fráköst. Henni næst var Kolbrún María Ármannsdóttir með 23 stig og 7 fráköst.
Fyrir gestina úr Keflavík var það Jasmine Dickey sem dró vagninn með 25 stigum, 13 fráköstum, 7 stolnum boltum og Thelma Dís Ágústsdóttir bætti við 10 stigum.
Hvað svo?
Stjarnan á leik næst komandi þriðjudag 8. október gegn nýliðum Tindastóls í Síkinu á Sauðárkróki. Keflavík leikur degi seinna miðvikudag 9. október gegn Njarðvík í Blue höllinni.
Myndasafn (væntanlegt)