spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÍslandsmeistararnir hrifsuðu stigametið af Blikum í 20 stiga sigurleik gegn þeim

Íslandsmeistararnir hrifsuðu stigametið af Blikum í 20 stiga sigurleik gegn þeim

Íslandsmeistarar Þórs lögðu Breiðablik í kvöld í Þorlákshöfn í Subway deild karla, 136-116. Eftir leikinn er Þór í efsta sæti deildarinnar með 26 stig á meðan að Breiðablik er í 9. sætinu með 14 stig.

Fyrir leik

Liðin hafa í eitt skipti áður mæst í deildinni á tímabilinu. Þann 11. nóvamber hafði Þór tveggja stiga sigur á Blikum í Smáranum, 102-104.

Í lið Breiðabliks vantaði bæði Sveinbjörn Jóhannesson og Sam Prescott, á meðan í Þórsliðið var Davíð Arnar Ágústsson fjarri góðu gamni.

Gangur leiks

Gestirnir úr Kópavogi koma ágætlega stemmdir til leiks. Ná að vera skrefinu á undan á upphafmínútunum, eru mest 6 stigum yfir um miðjan fyrsta fjórðung. Heimamenn í Þór eru þó snöggir að ranka við sér og snúa taflinu sér í vil fyrir lok fyrsta leikhluta, 35-27. Heimamenn láta svo kné fylgja kviði í öðrum leikhlutanum og eru með 23 stiga forystu þegar að liðin halda ril búningsherbergja í hálfleik, 77-54.

Stigahæstur í fyrri hálfleiknum fyrir heimamenn var Daniel Mortensen með 28 stig á meðan að Sigurður Pétursson dró vagninn fyrir Blika með 14 stigum.

Blikar mæta svo aftur nokkuð sprækir inn í seinni hálfleikinn. Ná að negla niður nokkrum þristum og eru aðeins 14 stigum fyrir aftan eftir þriggja mínútna leik í þeim þriðja. Aftur setja heimamenn fótinn þá aftur á bensíngjöfina og keyra forystu sína aftur í 19 stig fyrir lokaleikhlutann, 103-84. Eftirleikurinn að er virtist nokkuð auðveldur fyrir heimamenn sem loka leiknum með 20 stiga sigri, 136-116.

Tölfræðin lýgur ekki

Það var áberandi hvað Breiðablik vantaði leikmenn í fjarveru Sveinbjörns og Sam. Fengu aðeins 12 stig af bekknum á móti 43 stigum skoruðum af bekk heimamanna.

Stigametið

136 stig skoruð er það hæsta sem nokkurt lið hefur sett á tímabilinu. Það met hrifsuðu Íslandsmeistararnir af Breiðablik sem höfðu í lok janúar sett 135 stig á KR í Smáranum.

Atkvæðamestir

Atkvæðamestur heimamanna í leiknum var Daniel Mortensen með 47 stig, 13 fráköst og Ronaldas Rutkauskas bætti við 18 stigum og 14 fráköstum.

Fyrir gestina úr Kópavogi var Everage Lee Richardson atkvæðamestur með 35 stig, 6 fráköst og 10 stoðsendingar. Honum næstur var Sigurður Pétursson með 19 stig.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst eftir landsleikjahlé. Breiðablik þann 3. mars gegn Njarðvík í Smáranum, en Þór degi seinna þann 4. mars gegn nöfnum sínum á Akureyri.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -