Íslandsmeistarar Vals höfðu betur gegn Breiðablik í Origo höllinni í kvöld í 10. umferð Subway deildar kvenna. Eftir leikinn er Valur í 5. sæti deildarinnar með sex sigra og fjögur töp á meðan að Breiðablik er í 9. sætinu með einn sigur og níu tapaða það sem af er deildarkeppni.
Atkvæðamest fyrir Val í leiknum var Ásta Júlía Grímsdóttir með 18 stig, 12 fráköst og 3 stoðsendingar. Næst henni var nýr bandarískur leikmaður liðsins Doniyah Cliney með 9 stig, 10 fráköst og 4 stoðsendingar. Fyrir Breiðablik var það Sóllilja Bjarnadóttir sem dró vagninn með 10 stigum og 4 fráköstum.
Valur á leik næst komandi laugardag 2. desember gegn Haukum í Ólafssal á meðan að Breiðablik mætir Njarðvík degi seinna sunnudag 3. desember í Smáranum.