spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÍslandsmeistarar Vals lögðu Grindavík með minnsta mun mögulegum

Íslandsmeistarar Vals lögðu Grindavík með minnsta mun mögulegum

Hann var æsispennandi og harður leikurinn í Grindavík í kvöld þar sem Íslands­meist­ar­ar Vals höfðu betur gegn heimamönnum. Aðeins munaði einu stigi á liðunum í leikslok, en lokatölur urðu 67-68.

Fyrsti sig­ur Valsmanna í úr­vals­deild­inni á nýhöfnu tíma­bil­inu, en þetta var önnur umferð deildarinnar. Grindavík er einnig með tvö stig líkt og Valur.

Í heildina var leikurinn gríðarlega jafn; Val­smenn byrjaði aðeins bet­ur og leiddu með 6 stig­um, 20:14, eftir fyrsta leik­hluta. 

Í öðrum leik­hluta voru heimamenn aðeins sterk­ari aðil­inn, þótt jafnræðið héldi áfram, og munaði aðeins einu stigi þegar fyrri hálfleikur var allur, 35:36. 

Allt var í járn­um í síðari hálfleik – baráttan jókst meira og meira og stundum munaði litlu að upp úr syði, sem gerðist þó sem betur fer ekki.

Í blálokin stigu Valsmenn upp, sérstaklega Kári Jónsson, sem fram að lokakaflanum hafði átt misjafnan leik. Hann skoraði mikilvæga þriggja stiga körfu sem kom Val sex stigum yfir, 64:58, og setti stuttu síðar niður tvö víti af miklu öryggi; leikmaður sem ávallt er góður á ögurstundu.

Grindvíkingar gefast hins vegar aldrei upp fyrr en í fulla hnefana og þeir minnkuðu muninn í eitt stig, 68:67, á loka­sek­únd­unni, en komust ekki lengra að þessu sinni. 

Hjá Val var króatíski leikmaðurinn Ozren Pavlovic með 14 stig og reif niður 8 frá­köst. Kristó­fer Acox var að vanda öfl­ug­ur í frá­köstunum og hirti þau 13. Kári Jónsson var sterkur á lokakaflanumn og Hjálmar Stefánsson lék afar vel í vörninni eins og honum er einum lagið. Ástþór Atli Svalason hitti vel og hefði að ósekju mátt spila meira.

Í liði heimamanna var stiga­hæst­ur Banda­ríkjamaður­inn Dav­id Azore, skoraði 14 stig og tók þá 9 frá­köst. Ólaf­ur Ólafs­son var næstur með 13 stig og frákastaði vel; tók 13 fráköst. Grikk­inn Gai­os Skordil­is var góður, reif niður 14 fráköst og skoraði 10 stig. Kappinn er að jafna sig eftir rifbrot og gat ekki alveg beitt sér 100%. Þegar hann verður orðinn heill heilsu er ekki ólíklegt að hér sé á ferðinni all svakalegur leikmaður; stór og nautsterkur og á án efa eftir að nýtast Grindvíkingum vel í vetur. Bragi Guðmundsson átti flotta spretti og er á góðri leið með að verða einn af betri ungu leikmönnum deildarinnar. 

Tölfræði leiks

Myndasafn (Ingibergur Þór)

https://www.karfan.is/2022/10/johann-segir-grindvikinga-ekki-alveg-satta-med-hop-lidsins-erum-ad-skoda-nokkra-moguleika/
https://www.karfan.is/2022/10/kari-eftir-leik-i-grindavik-forum-thakklatir-heim-med-stigin-tvo/
Fréttir
- Auglýsing -