Ísland leikur heima og heiman nú í kringum helgina gegn Ítalíu í undankeppni EuroBasket 2025. Fyrir leikina tvo hefur Ísland unnið einn og tapað einum, en liðið er í riðli með Ítalíu, Tyrklandi og Ungverjalandi. Leikirnir eru 3. og 4. leikur undankeppninnar af sex, en lokaleikirnir munu svo fara fram í febrúar.
Hérna er hægt að kaupa miða á heimaleikinn
Þrjú efstu lið riðilsins munu tryggja sér sæti á lokamótinu sem fram fer í Lettlandi, Póllandi, Finnlandi og Kýpur í lok ágúst, byrjun september á næsta ári. Hér fyrir neðan má sjá stöðuna í riðlinum. Eins og tekið er fram eru næstu tveir leikir Íslands gegn Ítalíu og á sama tíma mun Ungverjaland leika tvo leiki gegn Tyrklandi. Leikirnir í febrúar fyrir Ísland eru svo heimaleikur gegn Tyrklandi og úti gegn Ungverjalandi.
Fyrir þennan annan glugga af þremur í undankeppninni er því ljóst að til þess að tryggja sig áfram þyrfti Ísland að vinna báða leiki sína gegn Ítalíu á sama tíma og Ungverjaland myndi tapa báðum leikjum sínum gegn Tyrklandi.
Þó liðið yrði ekki öruggt áfram, myndi það þó fara langleiðina með það ef Ísland ynni aðeins annan þessara leikja gegn Ítalíu, og að sjálfsögðu á sama tíma myndi Tyrkland vinna Ungverjaland tvisvar. Að öðrum kosti, ef bæði Ungverjaland og Ísland tapa báðum leikjum sínum gegn sterkum þjóðum Ítalíu og Tyrklandi í þessum öðrum glugga er ekki ólíklegt að leikur Íslands og Ungverjalands ytra í febrúar yrði hálfgerður úrslitaleikur um hvort liðið myndi tryggja sér sæti á lokamótinu.
Sé litið á málið frá sjónarhorni Ítalíu. Þá tryggja þeir sig áfram á lokamótið ef þeir vinna Ísland tvisvar í þessum glugga, óháð því hvernig leikir Tyrklands og Ungverjalands fara. Fari svo að Tyrkland vinni Ungverjaland bæði heima og heiman nú um helgina, dugir Ítalíu að vinna Ísland í eitt skipti til þess að tryggja sig áfram.