{mosimage}
Finnar unnu Íslendinga 86-93 í B-deild Evrópukeppninnar í Laugardagshöll þar sem mæting var ágæt.
Eftir smá byrjunarörðuleika fóru liðin að skiptast á körfum en um ein og hálfa mín. leið þangað til að fyrsta karfa leiksins var skoruð og var það Finninn Antti Nikkila sem skoraði hana.Fljótlega eftir körfu Finna skoraði Ísland og byrjaði þá stuðið. Hlynur Bæringsson fór á kostum undir körfu Íslands og tók hvert frákastið á fætur öðru en hann ásamt Loga Gunnarssyni skoruðu fyrstu 12 stig Íslands. Íslenska liðið lék við hvern sinn fingur og stemningin í liðinu var gífurleg. Boltinn gekk vel á milli manna og voru leikmenn ósmeykir við að keyra upp að körfu Finna. Brenton Birmingham var drjúgur og skoraði 9 stig í fyrsta leikhluta. Páll Axel Vilbergsson átti frábæra innkomu sem og Fannar Ólafsson sem kom inn í leikinn með mikla baráttu eins og honum einum er lagið. Ísland náði 10 stiga forystu og var staðan 31-21 eftir 1. leikhluta.
{mosimage}
Annar leikhluti byrjaði svipað og sá fyrsti þ.e.a.s. vandræðagangur hjá íslenska liðinu. Finnar minnkuðu muninn í 6 stig en góðar þriggjastiga körfur frá Helga Magnússyni og Jakobi Sigurðssyni héldu Finnunum frá frekari stigaminnkun. Hlynur og Fannar komu inn á eftir að hafa setið á bekknum í nokkrar mínútur og verður að segjast að það er virkilega gaman að fylgjast með þeim félögum undir körfunni. Þrátt fyrir að vera nokkuð minni en miðherjar Finna þá bæta þeir félagar upp hæðina með ótrúlegri baráttu.Ísland skipti yfir í 2-3 svæðisvörn sem virkaði ekki nógu vel og var skipt aftur yfir í maður á mann. Ísland leiddi í hálfleik með 11 stigum, 57-46, og virtist ekkert ætla að breyta því.
Það má segja að allt annað íslenskt lið hafi komið inn á í seinni hálfleik. Fyrsta karfa Íslands kom ekki fyrr en að rúmar 3 mín. voru búnar af þriðja leikhluta. Finnar voru á miklu skriði á þessum tímapunkti og mínútu eftir fyrstu körfu Íslands voru Finnar búnir að jafna. Finnar unnu leikhlutan 25-10 og leiddu með 4 stigum eftir leikhlutan 67-71.
{mosimage}
Vítanýting Íslands var með eindæmum slæm í seinni hálfleik og boltahreyfingin og leikgleðin sem einkenndi fyrri hálfleik var ekki til staðar. Menn voru farnir að sætta sig við léleg skot og hreinlega hræddir við að taka þau sem voru opin. Það var ekki fyrr en að Páll Axel tók af skarið og setti niður nokkrar góðar körfur. Brenton fylgdi honum fast á eftir og góður kafli íslenska liðsins varð til þess að þeir minnkuðu muninn í 5 stig.
Þegar 1 mín. og 17. sek. voru eftir héldu íslensku leikmennirnir í sókn og freistuðust til að minnka muninn enn meira. Allt í einu flautar dómarinn og dæmir, að mati margra, virkilega ódýra sóknarvillu á Hlyn. Hlynur reiðist og lendir í orðaskaki við einn finnska leikmanninn. Dæmir þá dómarinn tæknivillu á Hlyn og þar sem að Finnar voru komnir í bónus fengu þeir 4 skot og boltan aftur. Finnar nýttu þrjú af vítum sínum og skoruðu úr sókninni. Munurinn orðin 10 stig og þar með var þetta búið fyrir Íslenska liðið sem sýndi það í fyrri hálfleik að þeir geta spilað virkilega góðan körfubolta. Síðasta orðið átti Páll Axel sem skoraði þriggja stiga körfu og minnkaði muninn í 7 stig. Lokatölur urðu 86-93 Finnum í vil.
{mosimage}
Byrjunarlið Íslands skipuðu:
Jón Arnór Stefánsson
Logi Gunnarsson
Friðrik Stefánsson
Hlynur Bæringsson
Brenton Birmingham
Stig Íslands:
Brenton Birmingham 20
Páll Axel Vilbergsson 17
Hlynur Bæringsson 13
Logi Gunnarsson 13
Jón Arnór Stefánsson 9
Helgi Magnússon 5
Friðrik Stefánsson 4
Jakob Sigurðarson 3
Fannar Ólafsson 2
Myndir: [email protected]
Texti: [email protected]