Íslenska karlalandsliðið mætir Spáni og Georgíu nú í lok mánaðar í lokaleikjum sínum í undankeppni HM 2023. Fyrir leikina er Ísland í sögulega góðri stöðu til þess að tryggja sig á lokamótið, með sama árangur og Georgía 4-4 og einum leik betra en Úkraína 3-5, sem enn bæði eiga einnig möguleika á að tryggja sér þriðja og síðasta sæti riðilsils.
Alls eru það 12 þjóðir sem ná að tryggja sig á lokamótið úr undankeppni Evrópu, en fyrir þennan lokaglugga hafa 9 tryggt sig áfram, svo aðeins eru 3 sæti í boði í þessum lokaglugga. Þær þjóðir sem hafa þegar tryggt sig áfram eru Finnland, Lettland, Þýskaland, Grikkland, Slóvenía, Frakkland, Litháen, Spánn og Ítalía.
Vefmiðill FIBA gaf á dögunum út kraftröðun liða Evrópu fyrir þennan lokaglugga undankeppninnar. Þar er Spánn í efsta sæti, Frakkland öðru og Lettland er í því þriðja. Neðar á listanum er andstæðingur Íslands í lokaleik undankeppninnar Georgía í 12. sætinu, en einu sæti neðar, í 13. sætinu situr Ísland.
Um Ísland í krafröðuninni segir FIBA:
“Draumur Íslands að tryggja sig á lokamót HM í fyrsta skipti lifir ennþá góðu lífi og örlög þeirra eru í raun í þeirra eigin höndum fyrir leikina gegn Spáni og Georgíu. Líklegt er að Ísland þurfi að vinna upp þriggja stiga heimatap sitt gegn Georgíu í lokaleik keppninnar ætli þeir sér áfram”
Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil