Íslenska kvennalandsliðið mun nú í byrjun mánaðar leika tvo síðustu leiki sína í undankeppni EuroBasket 2025.
Báðir eru leikirnir á útivelli. Sá fyrri fer fram 6. febrúar gegn Tyrklandi í Izmit, en sá seinni þann 9. febrúar gegn Slóvakíu í Bratislava.
Það sem af er keppni hefur Ísland unnið einn leik og tapað þremur, en þær eru í 3. til 4. sæti riðilsins jafnar Rúmeníu að stigum á meðan Tyrkland er taplaust eftir fjóra leiki í efsta sætinu og Slóvakía í öðru sætinu með tvo sigra og tvö töp. Karfan heyrði í Halldóri Karli Þórssyni aðstoðarþjálfara Íslands og spurði hann út í ferðalagið, hópinn og leikinn gegn Tyrklandi.
Varðandi ferðalag Íslands út til Tyrklands sagði Halldór það hafa gengið upp og ofan. Einn leikmaður liðsins hafi orðið eftir vegna vandræða með vegabréf, en það muni á endanum ekki koma að sök og að hún sé væntanleg til móts við liðið seinna í kvöld. Þá sagði hann liðið vera við æfingar þessa næstu daga fram að leik í Izmit.
Hérna er 12 leikmanna hópur Íslands
Varðandi hóp liðsins sagði Halldór liðið vera í minni kantinum líkt og í síðasta glugga, en það kom ekki að sök í þeim glugga þar sem Ísland náði að spila á sínum styrkleikum og vann einn leik og tapaði einum. Þá sagði Halldór það mikið gleðiefni að fá einn besta leikmann liðsins Söru Rún Hinriksdóttur aftur inn í hóp íslenska liðsins eftir tveggja ára fjarveru. Sara hefði misst af fyrstu tveimur gluggum keppninnar og hefði í raun verið frá leik með landsliðinu síðustu tvö ár.
Mótherji Íslands í Tyrklandi eru þegar búnar að tryggja sig áfram á lokamótið, en varðandi möguleika Íslands gegn þeim sagði Halldór þær vera með ógnarsterkt lið, reyndar líkt og síðast, þar sem Ísland var nálægt því að vinna þær. Sagði hann að lokum ,,Þurfum að eiga hörkuleik til að valda einhverjum usla”
Ísland mætir Tyrklandi komandi fimmtudag 6. febrúar í beinni útsendingu á RÚV kl. 15:50