spot_img
HomeFréttirÍsland mætir Ítalíu í Ólafssal þann 24. febrúar - FIBA gefur sérstakt...

Ísland mætir Ítalíu í Ólafssal þann 24. febrúar – FIBA gefur sérstakt leyfi vegna fyrirheita stjórnvalda

Framundan er landsliðsgluggi hjá landsliði karla í körfuknattleik þegar liðið á tvo leiki á dagskránni í undankeppni HM 2023 gegn Ítalíu í febrúar. Leikið verður heima og að heiman en fyrri leikurinn er hér á landi og svo fer sá síðari fram á Ítalíu.

Heimaleikur Íslands verður í Ólafssal í Hafnarfirði fimmtudaginn 24. febrúar og útileikurinn fer fram sunnudaginn 27. febrúar í Pala Dozza höllinni í Bologna. Báðir leikirnir verða í beinni útsendingu á RÚV.

Sótti KKÍ um og fékk sérstakt leyfi til þess að fá að leika þennan eina heimaleik í Ólafssal þar sem að í nóvember sl. fékk kvennalandsliðið heimild til að leika þar með sérstöku leyfi FIBA og tókst það vel til. Laugardalshöllin er ennþá óstarfhæf líkt og áður og sér ekki fyrir endan á því hvenær hún verður tilbúin til notkunar á ný.

FIBA gaf leyfi nú fyrir Ólafssal vegna fyrirheita og áætlana stjórnvalda á Íslandi um að gera betur og koma framkvæmdum körfuknattleiks þjóðarleikvagns af stað á þessu ári. Til þess að þetta gangi upp þarf sambandið þó að reiða sig á starfsfólk Laugardalshallarinnar og Ólafssals til að búnaður sem nauðsynlegur er geti verið ferjaður úr Höllinni í Ólafssal og völlurinn verði löglegur í þessari keppni.

Fréttir
- Auglýsing -