Ísland tapaði í dag lokaleik sínum í undankeppni EuroBasket 2021 fyrir heimakonum í Slóveníu, 96-59. Slóvenía var fyrir leikinn búnar að tryggja sér þáttöku á lokamótinu, en þær enduðu með fullkominn árangur, 6 sigra og ekkert tap. Ísland endaði á hinum enda riðilsins, með engan sigur og 6 töp.
Gangur leiks
Það voru heimakonur í Slóveníu sem byrjuðu leik dagsins mun betur. Byggðu upp þægilegt forskot strax á upphafsmínútum leiksins og voru 14 stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 24-10. Undir lok fyrri hálfleiksins láta þær svo kné fylgja kviði og eru komnar 19 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 44-25.

Í upphafi seinni hálfleiksins gerir Ísland nokkuð vel í að halda í við Slóveníu, sem þó bæta við forskot sitt fyrir lokaleikhlutann og eru 23 stigum yfir fyrir þann fjórða, 68-45. Eftirleikurinn nokkuð auðveldur fyrir Slóveníu, sem að lokum sigla einkar öruggum 37 stiga sigri í höfn, 96-59.
Munar um minna
Sara Rún Hinriksdóttir meiddist í leiknum eftir tæplega 5 mínútna leik. Hún komst ekki á blað í stigaskorun, en það munar um minna þar sem að Sara hefur umdeilanlega verið besti leikmaður liðsins í undankeppninni með 16 stig og 4 fráköst að meðaltali í leik.

Kjarninn
Líkt og í fyrri leik þessa glugga var Ísland að mæta mjög sterku liði eins og tekið var fram hafði Slóvenía enn ekki tapað leik í undankeppninni og eru samkvæmt heimslista FIBA 16. besta lið í heiminum, en á sama lista er Ísland sett í sæti númer 46. Með tilliti til þess er vel hægt að segja að íslenska liðið hafi gert vel með að bæði halda í við Slóveníu í öðrum og þriðja leikhluta í dag, sem og að hafa verið inni í fyrri leiknum gegn sterku liði Grikklands í fyrri hálfleiknum.

Atkvæðamestar
Atkvæðamestar í liði Íslands í dag voru Þóra Kristín Jónsdóttir og Hildur Björg Kjartansdóttir. Á tæpum 37 mínútum spiluðum skilaði Þóra 17 stigum og 8 stoðsendingum. Hildur lék rúmar 32 mínútur og var með 25 stig og 9 fráköst.
Leikurinn í heild