Undir 18 ára stúlknalið Íslands lagði Noreg í dag í lokaleik sínum á Norðurlandamótinu í Södertalje í Svíþjóð, 69-74. Liðið hafnaði því í fjórða sæti mótsins, með tvo sigra og þrjú töp.
Fyrir leik
Bæði höfðu liðin unnið einn leik og tapað þremur fyrir lokadaginn líkt og Svíþjóð. Með sigri hefði Ísland því lyft sér upp í fjórða sæti mótsins, en færi svo að þær töpuðu leiknum var raunhæfur möguleiki á að liðið myndi enda í sjötta sæti.
Í byrjunarliði Íslands í dag voru Kolbrún María Ármannsdóttir, Bára Björk Óladóttir, Anna María Magnúsdóttir, Elísabet Ólafsdóttir og Fjóla Gerður Gunnarsdóttir.
Gangur leiks
Íslenska liðið fór heldur hægt af stað í leik dagsins. leyfðu Noregi hvað eftir annað að komast að körfunni og skora. Munurinn sjö stig þegar fyrsti leikhluti er á enda, 22-15. Noregur gengur svo enn á lagið undir lok fyrri hálfleiksins og bætir við forskot sitt, en þær eru duglegar við að skapa sér tapaða bolta hjá Íslandi og keyra vel í bakið á þeim. Munurinn 17 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 41-24.
Stigahæst fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum var Kolbrún María Ármannsdóttir með 10 stig og þá var Bára Björk Óladóttir komin með 6 stig.
Íslenska liðið nær aðeins að koma til baka í upphafi seinni hálfleiksins og er það að miklu leyti beittum sóknarleik þeirra að þakka. Eru minna að hika við hlutina, setja skotin sín og eru nokkuð duglegar að koma sér á línuna. Með glæsilegum flautuþrist frá Fanneyju Maríu Freysdóttur standa leikar jafnir fyrir lokaleikhlutann, 52-52.
Í upphafi þess fjórða virðist norska liðið aftur ná tökum á leiknum og er munurinn 4 stig þegar rúmar fimm mínútur eru til leiksloka, 59-55. Á lokamínútunum nær Ísland að herða vörnina og komast aftur yfir í stöðunni 61-62 þegar um tvær mínútur eru eftir. Anna María Magnúsdóttir kemur Íslandi svo aftur yfir með glæsilegu gegnumbroti þegar um 30 sekúndur eru eftir, 62-64. Sænska liðið jafnar í sókninni á eftir. Íslenska fær svo nokkur tækifæri til að vinna leikinn á lokasekúndunum, en allt kemur fyrir ekki. Leikurinn er framlengdur, 64-64.
Áfram er leikurinn spennandi vel inn í framlenginguna og er jafnt öllum tölum þegar rúm mínúta er til leiksloka, 69-69. Kolbrún María tekur þó nokkuð til sín sóknarlega setur körfu í tveimur sóknum í röð á undan og svo þrist til að koma Íslandi yfir, 69-72. Anna María setur niður fjögur víti í framhaldinu, 69-76 og það virtist duga fyrir Ísland, sem sigra að lokum, 69-76.
Atkvæðamestar
Kolbrún María Ármannsdóttir var frábær fyrir Ísland í dag með 30 stig, 14 fráköst og 6 stoðsendingar. Þá skilaði Bára Björk Óladóttir 12 stigum og Anna María Magnúsdóttir var með 9 stig, 4 fráköst og 5 stoðsendingar.
Kjarninn
Þrátt fyrir að sigrarnir hafi kannski ekki orðið jafn margir og þeir hefðu getað orðið á þessu Norðurlandamóti má segja að heildar frammistaða liðsins hafi verið góð. Voru alltaf í leikjum við mótherja sína og að einhverju leyti óheppnar að ná ekki að sigri fleiri leiki. Það verður áhugavert að sjá hvernig þessu liði gengur á Evrópumótinu með A landsliðsleikmanninn Ísoldi Sævarsdóttur innanborðs.
Hvað svo?
Næstu leikir á dagskrá hjá liðinu er Evrópumótið í Rúmeníu sem fram fer 2.-11. ágúst, en þangað til mun liðið æfa á Íslandi.