Undir 18 ára stúlknalið Íslands hafnaði í 12. sæti Evrópumótsins í Ploiesti í Rúmeníu eftir tap í dag gegn Hollandi í leik upp á 11. sætið.
Íslenska liðið hóf leik dagsins ágætlega og leiddu þær með 4 stigum eftir fyrsta leikhluta. Holland náði hinsvegar góðum tökum á leiknum undir lok fyrri hálfleiks og eru þær komnar með átta stiga forystu þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik. Í upphafi seinni hálfleiksins eltir íslenska liðið áfram og er munurinn orðinn 13 stig fyrir lokaleikhlutann. Ísland gerir ágætlega að vinna niður forskot Hollands í upphafi þess fjórða, en ná ekki að halda það út. Holland bætir aftur í og er niðurstaðan að lokum níu stiga ósigur Íslands, 71-62.
Kolbrún María Ármannsdóttir var atkvæðamest fyrir Ísland í dag með 17 stig og 15 fráköst. Þá skilaði Ísold Sævarsdóttir 17 stigum, 3 fráköstum, 3 stoðsendingum, 3 stolnum boltum og Jóhanna Ýr Ágústsdóttir var með 15 stig og 3 fráköst.