Íslenska U18 landslið kvenna hóf leik í B-deild evrópumóts landsliða sem fram fer í Sarajevo. Fyrsti leikurinn var gegn Portúgal í dag.
Skemmst er frá því að segja að Ísland sigraði leikinn og byrjar þar með mótið að krafti. Eftir brösuga byrjun íslensku stúlknanna þar sem liðið skoraði einungis sjö stig í fyrsta leikhluta var ekki aftur snúið.
Ísland sneri leiknum algjörlega sér í hag og náði forystu fyrir hálfleik. Forystuna gáfu þær aldrei af hendi og lönduðu að lokum 61-52 sigri á Portúgal.
Sylvía Rún Hálfdánardóttir átti frábæran leik fyrir íslenska liðið þar sem hún skilaði 21 stigi og níu fráköstum. Þá var Elín Sóley Hrafnkelsdóttir með 13 stig og 12 fráköst en allir leikmenn íslenska liðsins spiluðu í dag.
Ísland mætir Rúmeníu á mánudaginn í öðrum leik mótsins en sigur liðsins í dag gefur fögur fyrirheit.
Mynd / Bára Dröfn