spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÍsak um brotthvarf sitt frá ÍR: Fannst að félagið þyrfti nýja rödd

Ísak um brotthvarf sitt frá ÍR: Fannst að félagið þyrfti nýja rödd

Ísak Máni Wíum sagði starfi sínu sem þjálfari ÍR í Bónus deild karla lausu nokkuð óvænt í gær. Samkvæmt tilkynningu frá félaginu mun aðstoðarþjálfari liðsins Baldur Már Stefánsson taka við stjórn liðsins um tíma, þangað til annar hefur verið ráðinn í starfið.

Þrátt fyrir að vera aðeins 25 ára gamall hefur Ísak verið þjálfari meistaraflokka félagsins í þó nokkur ár. Áður en hann tók við meistaraflokki karla hafði hann verið aðalþjálfari meistaraflokks kvenna hjá félaginu. Á síðustu tveimur tímabilum var Ísak bæði sá þjálfari sem fór niður með liðinu er það féll úr efstu deild 2022-23 og tryggði þá beint aftur upp í Bónus deildina tímabilið 2023-24.

Karfan hafði samband við Ísak og spurði hann út í hvers vegna hann hafi ákveðið að segja starfi sínu lausu og hvort hann sjái fyrir sér að taka við einhverju öðru liði í framtíðinni.

Um brotthvarf sitt sagði Ísak “Ég fann að ég var lentur á ákveðnum vegg, búinn að vera í þjálfarateymi hjá meistaraflokkum félagsins í 4 ár auk þess að sinna yfirþjálfarastarfinu hjá yngri flokkum og ég fann að það var komin mikil þreyta í mig og fannst því sanngjarnast gagnvart félaginu, leikmönnum og sjálfum mér að stíga til hliðar á þessum tímapunkti.”

“Mér fannst að félagið þyrfti nýja rödd með sínar áherslur til hjálpa því að ná sínum markmiðum. Mjög erfið ákvörðun þar sem maður hefur verið hjá félaginu alla sína tíð og lagt á sig gríðarlega vinnu og auðvitað mjög þakklátur fyrir tækifærið að stýra uppeldisklúbbnum í þessi ár og mun ég alltaf bera virðingu fyrir stjórn félagsins að að gefa strák sem var rétt skriðinn yfir tvítugt tækifærið á sínum tíma. Þetta hefur verið gríðarlegur skóli og ég er þakklátur fyrir þennan tíma því það er ekki sjálfgefið að fá að taka inn alla þessa reynslu og lærdóm á þessu stigi ferilsins.”

Aðspurður hvort hann sjái fyrir sér að taka við öðru liði hafði Ísak að segja “Ég ætla mér að að klára samninginn minn við yngri flokka ÍR og koma með meiri krafti inn í það starf aftur. Auk þess að hlaða aðeins batteríin og hugsa um eigin heilsu næstu mánuðina svo mun ég bara skoða mín mál næsta sumar þar sem auðvitað er mitt markmið að halda áfram að starfa við þjálfun.”

Fréttir
- Auglýsing -