Subway deildar lið karla hjá ÍR hefur ráðið Ísak Mána Wíum sem aðalþjálfara liðsins fyrir komandi tímabil. Ísak Máni var aðstoðarþjálfari liðsins í vetur með Friðriki Inga Rúnarssyni, sem lagði spjaldið á hilluna nú í upphafi mánaðar.
Undir stjórn Friðriks og Ísaks náði liðið að bjarga sér frá falli og voru í þó nokkurri baráttu um sæti í úrslitakeppni fram á síðustu umferðir, en þeir höfnuðu í 10. sæti deildarkeppninnar.
Ísak Máni, sem er aðeins 23 ára gamall, kemur beint úr akademíu ÍR, þar sem hann var fyrst sem leikmaður, en hefur verið þjálfari þar síðustu ár bæði sem yfirþjálfari yngri flokka, en á síðasta tímabili einnig sem þjálfari meistaraflokks kvenna hjá félaginu.
Fréttatilkynning:
Í dag var undirritaður samningur við Ísak Mána Wíum um þjálfun meistaraflokkslið ÍR í karlaflokki. Um ræðir þriggja ára samning sem felur í sér að Ísak verður við stjórnvöl liðsins a.m.k. út leiktíðina 2024-2025.
Ráðning Ísaks er okkur ÍR-ingum mikil gleðitíðindi. Hann þarf vart að kynna fyrir áhugafólki um körfubolta enda hefur hann vakið mikla athygli undanfarin misseri fyrir þjálfarastörf sín. Ráðningin sérlega ánægjuleg með það í huga að Ísak er hreinræktaður og gegnheill ÍR-ingur en hann hóf að æfa körfubolta hjá félaginu árið 2008 og þjálfun sex árum síðar.
Undanfarin þrjú ár hefur Ísak gegnt starfi yfirþjálfara yngri flokka félagsins auk þjálfun yngri flokka. Mikil ánægja er með þau störf Ísaks sem hann mun halda áfram að sinna samhliða þjálfun meistaraflokks karla. Keppnistímabilið 2021-2022 stýrði hann meistaraflokki kvenna félagsins með ágætum árangri. Á nýliðnu keppnistímabili tók hann tímabundið við þjálfun karlaliðsins uns Friðrik Ingi Rúnarsson var ráðinn aðalþjálfari. Á sama tíma tók Ísak að sér hlutverk aðstoðarþjálfara Friðriks Inga og vann með miklum sóma.
Í kjölfar undirritunar samnings í dag lét Ísak hafa eftir sér að hann er þakklátur félaginu sínu fyrir það traust sem honum er sýnt og tækifærið sem honum er gefið á stærsta sviði íslensk körfuknattleiks, einungis 23 ára gömlum. Einnig vildi hann koma því að hann muni að sjálfsögðu leggja allt sitt í starfið til að hefja lið ÍR til vegs og virðingar á nýjan leik og í nýju íþróttahúsi ÍR sem vígt verður þann 1. júní nk. Hann muni leggja áherslu á að treysta innviði liðsins með uppöldum leikmönnum og hafa langtíma hagsmuni félagsins að leiðarljósi. Kvaðst hann að lokum vera spenntur fyrir komandi tímum og þá sérlega að upplifa áframhaldandi stuðning Ghetto Hooligans og annarra stuðningsmanna í stúkunni.
ÍR-ingum öllum er óskað til hamingju með ráðningu nýs þjálfara og megi komandi ár vera bæði skemmtileg og árangursrík undir stjórn nýs þjálfara.
Að endingu þykir viðeigandi að benda á að báðir þjálfarar meistaraflokka félagsins eru á þrítugsaldri. Kristjana Eir er 28 ára og Ísak 23 ára. Það má með sanni segjast að spennandi tímar séu framundan í Breiðholtinu undir tryggri stjórn þessara ungu og kraftmiklu þjálfara.
Áfram ÍR!