Stjarnan lagði ÍR í 14. umferð Subway deildar karla, 94-76. Eftir leikinn er Stjarnan í 8. sæti deildarinnar með 12 stig á meðan að ÍR er í 10. sætinu með 6 stig.
Karfan spjallaði við Ísak Wiium eftir þungt tap í Garðabænum:
Hvað er vandamálið hjá þínu liði?
“Við erum í vandræðum með að skora, það koma of margir kaflar þar sem við erum í vandræðum með að skora boltanum og hefur verið svolítið þannig í allan vetur“
Mér finnst ekki alveg nógu góður liðsbragur yfir þessu hjá ykkur, þú hefur góða einstaklinga í höndunum og byrjunarliðið er mjög flott…?
“Já, eins og öll byrjunarlið í deildinni þá er okkar byrjunarlið flott og ég er sáttur með það, vissulega vildum við vera með betri árangur með þetta lið, það er engin spurning. Mér finnst skorta aðeins meiri karakter í menn…“
Já, þú kallar svolítið eftir því…?
“Já, ég kalla eftir því – við höfum lent í alls konar holum á tímabilinu, við lentum í holu með 2 stig og áttum KR og Þór Þ og þá sýnum við þvílíkan liðsbrag og passion, en við höfum ekki náð að kalla það fram í leikjunum okkar núna“
Akkúrat, manni finnst eins og að eftir að liðið skreið saman eftir allt vesenið í byrjun leiktíðar hefur það í raun allt sem þarf, t.d. góða áhorfendur og sterka heimamenn í Hákoni, Ragga og Sæsa…liðið á mikið inni?
“Jájá, 100%, og ég eins og allir aðrir þarf kannski að gera vinnuna mína aðeins betur til að ná því besta úr þessu liði, það er ekki spurning“
Einmitt. Hvert er markmiðið hjá ÍR eins og staðan er núna? Væntanlega að fókusera á það að halda liðinu uppi, menn eru kannski ekki mikið að horfa til úrslitakeppninnar í þessari stöðu?
“Neinei, kannski hefði svarið verið annað ef við hefðum unnið þennan leik en auðvitað er það fyrsta markmið að ná að halda liðinu uppi, það yrði mikið áfall ef eitthvað annað myndi gerast“
Sagði hinn ungi þjálfari ÍR-inga Ísak Wiium og vonandi svarar liðið ákalli hans strax í næsta leik.