spot_img
HomeFréttirÍris og Marín tóku Hamar á bakið og upp í úrvalsdeild

Íris og Marín tóku Hamar á bakið og upp í úrvalsdeild

Hamar mun leika í Domino´s deild kvenna á næstu leiktíð eftir 73-59 sigur á Stjörnunni í oddaviðureign liðanna í 1. deild kvenna. Taugatitringurinn var allnokkur í Hveragerði í kvöld, fullt hús í boði Arionbanka, stress í herbúðum beggja liða en þær Íris Ásgeirsdóttir og Marín Laufey Davíðsdóttir reyndust Garðbæingum um megn að þessu sinni, rispur þeirra gerðu gæfumuninn í kvöld og bláar að sama skapi að hitta illa og verða því áfram í 1. deild á meðan Hamarskonur leika í deild þeirra bestu á næstu leiktíð.
 
Stressið kom fljótt upp á yfirborðið í herbúðum beggja liða, leiktíðin undir og því kannski ekki að búast við því að stigin myndu koma á færibandi hjá liðunum í jafn mikilvægum leik. Kristín Fjóla Reynisdóttir opnaði stigareikning gestanna með laglegri hreyfingu í teignum og Bára Fanney fylgdi í kjölfarið og kom Stjörnunni í 0-4.
 
Hvergerðingar voru lengi í gang, þeirra fyrstu stig duttu í hús eftir þrjár og hálfa mínútu og eins voru heimakonur óákveðnar og á köflum klaufalegar gegn pressuvörn Garðbæinga. Marín Laufey jafnaði þó metin í 4-4 og á sama tíma fékk Katrín Eik Össurardóttir sína þriðju villu í Hamarsliðinu eftir aðeins fimm mínútna leik!
 
Garðbæingar leiddu svo 10-12 eftir fyrsta leikhluta þar sem Kristín Fjóla Reynisdóttir hámaði í sig sóknarfrákast og skoraði um leið og leikhlutanum lauk.
 
Fyrstu fimm mínúturnar í öðrum leikhluta skulum við bara kalla ,,Írisarkafli Ásgeirsdóttur.” Marín Laufey jafnaði strax fyrir heimakonur 12-12 en þá tók eldibrandurinn Íris við keflinu, hún smellti niður þrist og breytti stöðunni í 15-12 en linnti ekki látum fyrr en hún hafði skorað heil tólf stig í röð fyrir heimakonur! Barátta Írísar smitaði út frá sér og Marín Laufey kom Hamri í 26-14 en þá var Kjartani Atla ekki til setunnar boðið og kallaði Garðabæjarkonur á bekkinn í leikhlé.
 
Hægt og sígandi tókst Stjörnunni að brúa bilið þrátt fyrir að vera 0 af 8 í þristum í fyrri hálfleik. Andrea Ösp og Bára Fanney börðu Stjörnunna nærri af mikilli hörku og staðan 33-26 í hálfleik en Hamar vann annan leikhluta 23-14 þar sem fyrstu fimm mínúturnar voru eiginlega bara sýningaratriði hjá heimakonum og Íris aðalatriðið.
 
Íris Ásgeirsdóttir var með 16 stig í hálfleik hjá Hamri en í liði Stjörnunnar var Bára Fanney með 8 stig og 5 fráköst.
 
Skotnýting liðanna í hálfleik:
Hamar: Tveggja 40% – þriggja 28,5% og víti 77,7%
Stjarnan: Tveggja 33,3% – þriggja 0% (0-8) og víti 50%
 
Jenný Harðardóttir opnaði síðari hálfleik fyrir Hvergerðinga með þrist og jók muninn í tíu stig, 36-26. Þriðji leikhluti fór svo í ekki ósvipaðan lás og sá fyrsti, umtalsverður fjöldi mistaka á báða bóga og nýtingin dræm. Hamar var alltaf með Stjörnuna í um tíu stiga fjarlægð og leiddu 49-36 fyrir fjórða og síðasta leikhluta þar sem Marín Laufey sýndi lipra landsliðstakta og bauð meðal annars upp á flautukörfu í Stjörnuteignum. Meðbyr Hamars var því umtalsverður á leið þeirra inn í fjórða leikhluta.
 
Fyrsti Stjörnuþristurinn fannst að lokum og hann gerði Bára Fanney og minnkaði muninn í 49-39. Lára Flosadóttir vann boltann strax aftur af Hamri sem lauk með körfu frá Bryndísi Hreinsdóttur og Stjörnukonur náðu að minnka muninn í 49-41. Lífsnauðsynleg rispa hjá Garðbæingum en þær fylgdu henni ekki nægilega vel eftir, Marín Laufey reyndist þeim erfið og Hvergerðingar ætluðu sér einfaldlega ekki að láta leikstjórnina af hendi og uppskáru verðskuldaðan 73-59 sigur og um leið sæti í Domino´s deild kvenna á næstu leiktíð.
 
Marín Laufey Davíðsdóttir gerði 22 stig og tók 15 fráköst í liði Hamars í kvöld og Íris Ásgeirsdóttir bætti við 23 stigum, 8 stoðsendingum og 4 fráköstum. Hjá Stjörnunni var Andrea Ösp Pálsdóttir með 16 stig og 10 fráköst og fyrirmyndar baráttu og Kristín Fjóla Reynisdóttir bætti við 15 stigum og 11 fráköstum.
 
 
Byrjunarliðin:
Hamar: Katrín Eik Össurardóttir, Jenný Harðardóttir, Íris Ásgeirsdóttir, Marín Laufey Davíðsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir.
Stjarnan: Bryndís Hanna Hreinsdóttir, Kristín Fjóla Reynisdóttir, Bára Fanney Hálfdánardóttir, Andrea Ösp Pálsdóttir og Heiðrún Ösp Hauksdóttir.
 
Umfjöllun/ [email protected]
  
Fréttir
- Auglýsing -