,,Það er ekki möguleiki að ég spili þetta tímabil, ég fór bara í aðgerðina í lok ágúst og var í allt sumar að bíða eftir að liðbandið myndi gróa. Þegar það gerðist mátti ég loksins fara að hjóla og reyna að vekja vöðfann í fætinum fyrir aðgerðina," sagði Íris Sverrisdóttir leikmaður Hauka í samtali við Karfan.is. Íris sleit krossbönd í úrslitakeppni úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og verður ekkert með Haukum þetta tímabilið.
,,Það hefur gengið vel eftir aðgerðina þó fyrstu tvær vikurnar eftir hana séu það erfiðasta sem ég gert en þá kann ég meira að meta þær framfarir sem ég tek eins og það að geta labbað venjulega upp og niður stiga og að hjóla," sagði Íris sem er núna byrjuð að hjóla og synda skriðsund.
,,Þetta er allt að koma en þolinmæðisvinnan er mikil sem ég á mjög erfitt með. Ég vil að hlutirnir gerist bara strax en þá fæ ég oft að heyra það frá sjúkraþjálfaranum og lækninum að ég eigi ekki að bera mig saman við síðasta skipti þegar ég sleit ,,bara" krossband og þær sem hafa bara slitið krossband því þetta tekur lengri tíma hjá mér þar sem liðbandið slitnaði líka."
Engan bilbug er að finna á Írisi sem ætlar ekkert að láta skóna á hilluna: ,,Það er alveg klárt að ég mun halda áfram. Ég sagði reyndar stuttu eftir aðgerðina að ét nennti sko ekki að ganga aftur í gegnum þetta en ég trúi því að þetta muni bara styrkja mig og ég komi tvíelfd til baka þó það muni taka langan tíma. Ég býst við því að ég geti byrjað að spila körfu í ágúst á næsta ári en ég er samt ekkert að flýta mér enda er það ekki hægt, þetta tekur allt sinn tíma."
Mynd/ [email protected]