spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÍR vann Stjörnuna í Hellinum - Breiðhyltingar ennþá með séns á úrslitakeppnissæti

ÍR vann Stjörnuna í Hellinum – Breiðhyltingar ennþá með séns á úrslitakeppnissæti

ÍR og Stjarnan áttust við í kvöld í Hertz-hellinum. Það hefur verið ákveðinn rígur á milli liðanna undanfarin ár og það leyndi sér ekkert í leiknum, enda tóku liðin vel hvert á öðru. Eftir að hafa leitt mest allan leikinn misstu Stjörnumenn dampinn aðeins á lokasprettnum og ÍR-ingar gátu unnið viðureignina með tveimur stigum, 97-95.

Fyrir leikinn var ljóst að Mirza Saralija, skytta Stjörnunnar og á tíðum X-faktor, yrði ekki með sökum meiðsla. Alexander Lindqvist var hins vegar aftur mættur í bláu treyju gestanna þó hann hafi reyndar ekki spilað nema tíu mínútur í leiknum. Hjá ÍR voru helstu póstar heilir og liðið ætlaði sér augljóslega að leggja allt í sölurnar í kvöld.

Gangur leiksins

Stjarnan var fljót að taka forystuna með góðu og flæðandi spili undir dyggri stjórn Ægis Þórs leikstjórnanda. Sjö af fyrstu átta skotum liðsins sem rötuðu rétta leið urðu til vegna sendingar frá liðsmanni á meðan að ÍR-ingar höfðu ekki gefið eina einustu stoðsendingu fyrstu 5 mínúturnar. Borce Ilievski, þjálfara ÍR, leist ekkert á blikuna og tók því sitt fyrsta leikhlé til að brýna liðsheildina fyrir sínum mönnum. Heimamenn tóku sig þá aðeins á en gestirnir voru komnir með ágæta forystu sem að þeir héldu út fyrsta leikhlutann. Hann endaði 16-26 fyrir Stjörnunni.

ÍR-ingar héldu áfram að mjatla niður muninn og höfðu minnkað muninn í sex stig eftir nokkrar mínútur þegar Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, hafði séð nóg og tók leikhlé. Það hafði tilætluð áhrif og Stjörnumenn breikkuðu bilið enn á ný þrátt fyrir baráttugleði heimamanna. Þristarnir voru að detta vel fyrir Garðbæinga í fyrri hálfleik og Arnþór Freyr hafði, sem dæmi, sett þrjú þriggja stiga skot í fimm tilraunum (60% nýting). Stjarnan leiddi í hálfleik með ellefu stigum, 46-57.

Munurinn á liðunum var lengi vel það að Stjarnan var að spila flæðandi bolta og leita að besta skotinu frekar en að láta boltann stoppa á ákveðnum leikmönnum, sem skilaði sér m.a. í að þeir höfðu gefið 20 stoðsendingar í hálfleik gegn aðeins níu stoðsendingum hjá ÍR.

ÍR var enn að basla við að láta sóknirnar ganga upp gegn sterkri vörn Stjörnunnar en náðu alltaf að halda Stjörnunni nógu nálægt sér til að þetta yrði ekki óyfirstíganlegt. Þar voru Sigvaldi Eggertsson og Sæþór Elmar Kristjánsson mikilvægir með nokkra vel valda þrista í þriðja leikhlutanum. Breiðhyltingar voru samt ekki nær en 76-83 þegar 10 mínútur lifðu leiks.

Í fjórða leikhlutanum urðu bæði lið skyndilega mjög hroðvirknisleg og virtust ætla reyna sitt besta til að tapa leiknum með slökum sendingum og töpuðum boltum. ÍR náði aðeins að nýta sér óreiðuna betur en Stjarnan og eftir nokkra mínútna áhlaup heimamanna var allt orðið jafnt, 83-83. Áfram héldu leikar og engin leið að sjá hvort liðið myndi hafa betur.

Á lokamínútunni stigu ÍR-ingar upp og gátu þröngvað Stjörnuna í nokkrar slæmar ákvarðanir. Lokasókn Stjörnumanna var ekki upp á marga fiska en einu stigi undir ákváðu þeir að dripla klukkuna niður í sjö sekúndur áður en þeir réðust á körfuna. Enn annar tapaður bolti leiddi til þess að ÍR-ingar gátu lokað leiknum á vítalínunni. Lokastaðan 97-95 fyrir ÍR.

Lykillinn

Lykill kvöldsins var Zvonko Buljan hjá ÍR. Hann lauk leik með 30 stigum, 5 fráköstum, 2 stoðsendingum og 2 stolnum. Þar að auki sótti hann 7 villur í leiknum og sá til þess að Hlynur Bærings yfirgaf leikinn fyrr en hann ætlaði sér með fimm villur. Tveir aðrir mjög mikilvægir voru fyrrnefndir Sigvaldi Eggertsson og Sæþór Elmar Kristjánsson en þeir settu saman 7/8 í þriggja stiga skotum sínum (4/4 hjá Sigvalda og 3/4 hjá Sæþóri).

Hjá Stjörnunni var Gunnar Ólafsson bestur með 24 stig, 4 fráköst, 4 stoðsendingar og 2 stolna bolta.

Kjarninn

ÍR stigu upp í erfiðum leik gegn erkifjendum sínum í kvöld þegar liðið þurfti nauðsynlega á sigri að halda. Þeir hafa hingað til koðnað í naumum leikjum en gátu með smá hjarta klárað dæmið eins og þjálfari þeirra komst að orði eftir leikinn (sjá hér neðar). Nú eru þeir að mestu öruggir frá falli og gætu jafnvel laumað sér aftur inn í úrslitakeppnina með sigri í næstu tveim leikjum gegn Njarðvík í Hertz-hellinum og KR í DHL-höllinni.

Stjarnan átti séns á að vinna þennan leik en allt of mörg mistök á stórum augnablikum í leiknum skilaði sér í þessu sára tapi í kvöld. Annað sætið í deildinni verður torsótt fyrir Stjörnuna sem verður núna bæði að vinna seinustu tvo leikina sína og vonast til að Þór Þorlákshöfn tapi báðum sínum. Þriðja sætið er svo sem ekkert ömurlegt, en Stjarnan ætlaði sér ekki að vera þar í upphafi tímabilsins.

Bæði lið geta klifið upp í töflunni en stutt er í úrslitakeppnina og því mikilvægt að tryggja sér góðan stað þar.

Viðtöl eftir leik

Zvonko Buljan, lykilmaður ÍR-inga í leiknum.

Borce Ilievski, þjálfari ÍR, eftir verðskuldaðan sigur.

Ingi Þór Steinþórsson, aðstoðarþjálfari Stjörnunnar, eftir sárt tap.

Gunnar Ólafsson, besti leikmaður Stjörnunnar í tapi.

Fréttir
- Auglýsing -