Snæfell leit við í Hertz hellinum í kvöld til að spila á móti heimamönnum þar í ÍR. Leikurinn afar mikilvægur fyrir bæði lið – ÍR til að halda sér í deildinni og Snæfell að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni. Annað liðið mætti til starfa, en hitt ekki.
Einhvern veginn virtist ljóst frá fyrstu mínútu að ÍR-ingar voru hungraðri í þennan sigur en Snæfellingar. Fyrsta sókn ÍR lauk ekki fyrr en í þriðju tilraun með körfu eftir að heimamenn höfðu hirt tvö sóknarfráköst. Gestirnir hristu samt af sér slenið og spíttu í lófanna. Snæfell náði að komast einu stigi yfir á áttundu mínútu en ÍR var ekki á þeim buxunum að gefa neitt eftir.
Í öðrum hluta héldu Snæfell í við ÍR-inga og liðin skiptust á að ná forystunni þar til um tvær og hálf mínúta voru eftir af fyrri hálfleik. Sherrod Wright brenndi þá af tveimur vítum auk þess sem Snæfell fékk þrjár tilraunir til að klára eina sóknina en allt kom fyrir ekki. ÍR-ingar hins vegar gengu á lagið og juku muninn þar til flautan gall í hálfleik í stöðunni 54-46, heimamönnum í vil.
Seinni hálfleikur var alger einstefna fyrir heimaliðið á meðan gestirnir sátu nánast hjá og horfðu á. ÍR-ingar spiluðu harða vörn og tókst að ýta Snæfelli algerlega út úr öllum aðgerðum með lítilli fyrirhöfn. Snæfell tapaði 26 boltum í leiknum en varnarleikur ÍR þvingaði þá ekki alla í gegn. Sóknarleikur Snæfells var algerlega í molum, en liðið skoraði aðeins 28 stig í seinni hálfleik.
ÍR-ingar hins vegar léku á alls oddi. Boltinn gekk í sókninni þar til opið skot fannst en skráðar voru alls 24 stoðsendingar á ÍR í leiknum. Allir voru að hitta og náði háloftafuglinn Björgin Hafþór tveimur troðslum úr hraðaupphlaupum í leiknum.
Sigur ÍR var aldrei í hættu og tókst Breiðhyltingum að innsigla mikilvægan 34 stiga stigur á Snæfelli 108-74.
Snæfellingar hafa verið fáliðaðir í vetur og átt oft í erfiðleikum með að fullmanna lið sitt og því allt eins mögulegt að þreyta sé farin að segja til sín hjá hópnum, þrátt fyrir að Ingi Þór Steinþórsson þjálfari liðsins þvertaki fyrir það. Hann sagði liðið fá sömu hvíld og önnur lið svo það sé engin átylla. Ingi átti hins vegar mjög langt spjall við dómara leiksins að honum loknum.
ÍR-ingar aftur á móti, án erlends leikmanns, tryggðu sér áframhaldandi dvöl í efstu deild.
Björgvin og Sveinbjörn Claessen voru frábærir í röðum ÍR með 25 og 21 stig. Vilhjálmur Theodór bætti við 20 stigum og setti Kristján Pétur niður 17 mikilvæg stig af bekknum. Hjá Snæfelli var skerfarinn Sherrod Wright stigahæstur með 19 stig og næstur honum kom Sigurður Þorvaldsson með 18 en takmarkað framlag barst frá öðrum.
ÍR-Snæfell 108-74 (25-23, 29-23, 21-14, 33-14)
ÍR: Björgvin Hafþór Ríkharðsson 25/5 fráköst/7 stoðsendingar, Sveinbjörn Claessen 21/4 fráköst, Vilhjálmur Theodór Jónsson 20, Kristján Pétur Andrésson 17/4 fráköst, Hákon Örn Hjálmarsson 9, Sæþór Elmar Kristjánsson 8/7 fráköst, Haraldur Bjarni Davíðsson 4, Trausti Eiríksson 2, Daði Berg Grétarsson 2/5 fráköst/7 stoðsendingar, Kristófer Fannar Stefánsson 0, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 0, Eyjólfur Ásberg Halldórsson 0/4 fráköst.
Snæfell: Sherrod Nigel Wright 19/6 fráköst, Sigurður Á. Þorvaldsson 18/5 fráköst, Stefán Karel Torfason 12/16 fráköst, Viktor Marínó Alexandersson 8, Þorbergur Helgi Sæþórsson 6/6 fráköst, Austin Magnus Bracey 5, Baldur Þorleifsson 3, Jóhann Kristófer Sævarsson 3, Jón Páll Gunnarsson 0, Ólafur Torfason 0.
Dómarar: Leifur S. Gardarsson, Kristinn Óskarsson, Steinar Orri Sigurðsson
Mynd: Björgvin Hafþór Ríkharðsson lék á alls oddi í leik ÍR og Snæfells í kvöld. (HT)