spot_img
HomeBikarkeppniÍR unnu Keflavík b í Geysis-bikarnum - Naglbítur í Hertz-Hellinum

ÍR unnu Keflavík b í Geysis-bikarnum – Naglbítur í Hertz-Hellinum

ÍR tók á móti Keflavík b í gær í 16-liða úrslitum Geysis-bikars kvenna kl.14:30 í Hertz-Hellinum. Í fyrra drógust Breiðhyltingar beint í 8-liða úrslit gegn Skallagrím og duttu út í fyrsta leik á meðan að lið Keflavík b samanstóð af stúlknaflokki Keflavíkur og keppti ekki í bikarnum á seinasta ári.

Gangur leiksins

ÍR-ingar byrjuðu ágætlega og leystu vel stífa vörn og pressu Keflavíkur b, enda byrjuðu tveir leikstjórnendur inn á fyrir heimastúlkur, þær Hrafnhildur Magnúsdóttir og Arndís Þóra Þórisdóttir. Keflvíkingar voru þó naskar að sækja stig líka og liðin skiptust á forystunni 8 sinnum í fyrsta leikhluta. Gestirnir voru með forystuna í lok fjórðungsins, 17-21.

Keflavík b hélt áfram að spila stífa vörn og ÍR-stúlkur fóru að verða bangnar í ákvörðunum og Keflvíkingar náðu 13-3 áhlaupi á fyrstu þrem mínútunum. Nína Jenný Kristjánsdóttir, miðherji ÍR, tók sig þá til og leiddi heimastúlkur með áhlaupi sem entist til hálfleikshlésins. ÍR-ingar skoruðu 16 stig gegn tveimur hjá Keflavík b síðustu 7 mínútur fyrri hálfleiksins og af þeim skoraði Nína Jenný 9 stig og varði þar að auki eitt skot og stal einum bolta. Staðan í hálfleik 36-36.

Leikurinn var áfram í járnum og hvorugt lið gat náð meira en 4 stiga forystu áður en hitt liðið saxaði forskotið niður og tók forystuna sjálf. Í fjórða leikhluta tóku Keflvíkingar annað áhlaup og komust í 7 stiga forystu, 54-61, þegar fjórar mínútur lifðu leiks. Þá tóku ÍR-ingar sig til og slökktu á gestunum, skoruðu aðeins úr einu víti restina af leiknum.

Í stöðunni 61-62 fengu ÍR-ingar innkast með 9 sekúndur eftir á leikklukku og Ólafur Jónas, þjálfari ÍR, tók leikhlé til að fá innkast á sóknarvelli og geta teiknað upp kerfi. Úr innkastinu fékk Nína Jenný boltann í horninu nokkrum skrefum fyrir innan þriggja stiga línuna og tveir Keflvíkingar þustu að til að brjóta á henni, enda áttu gestirnir eina villu til góða án þess að gefa heimastúlkum vítaskot. Nína hafði hins vegar nægar gætur á sér til að senda boltann strax á Jóhönnu Herdísi Sævarsdóttur, sem var hárrétt staðsett undir körfunni og setti snyrtilegt sniðskot ofan í til að koma heimaliðinu yfir, 63-62. Keflavík b gat ekki skorað á þeim örfáu sekúndum sem voru eftir af leiknum og ÍR gekk því af velli með sigur! Æsispennandi leikur fram á lokasekúnduna!

Lykillinn

Nína Jenný Kristjánsdóttir var lykillinn að sigri ÍR í þessum leik, enda áttu Keflvíkingar fá svör við henni inni í teig og hún gaf stoðsendinguna sem að endaði í sigurkörfunni. Nína lauk leik með 33 í framlag; 15 stig, 8 fráköst, 1 stoðsendingu (þá mikilvægustu), 2 stolna bolta og 2 varin skot. Í liði Keflavíkur b var Anna Ingunn Svansdóttir best með 18 stig, 4 fráköst, 4 þrista og 6 stolna bolta.

Tölfræðin

Stærð ÍR reyndist mjög strembin fyrir Keflavík b, enda unnu heimastúlkur frákastabaráttuna með 30 fráköstum (57-27, þ.a. 21-8 í sóknarfráköstum). Þær pössuðu þó ekki nægilega vel upp á boltann og töpuðu 32 boltum í leiknum sem skýrir mögulega hvernig þær gátu frákastað svona vel en samt bara unnið með 1 stigi.

Samantektin

Þá eru ÍR-ingar komnar áfram í 8-liða úrslit Geysis-bikarsins og bíða spenntar eftir að mæta einhverju úrvaldsdeildarliði (nema einhver óvænt úrslit komi upp). Önnur lið sem eru nú þegar komin áfram eru Valur, Stjarnan, Skallagrímur og Snæfell. Fleiri koma í ljós seinna í dag

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -