ÍR og Breiðablik mættust í dag í fyrsta leik í úrslitaseríu um Íslandsmeistaratitilinn í 12. flokk karla. Það lið sem fyrr vinnur 2 leiki mun standa uppi sem sigurvegari. Mikill efniviður er í báðum liðum og leikmenn sem þegar hafa fengið smjörþefinn af meistaraflokki og því mátti búast við hörku leik þegar flautað var til leiks í Seljaskóla í dag.
Gríðarlegur hraði var í leiknum til að byrja með og skipust liðin ört á að leiða í fyrsta leikhluta en ÍR leiddi 29-25 eftir þriggja stiga körfu Magnúsar undir lok leikhlutans. Blikar komust aftur yfir snemma í 2. Leikhluta 31-33 og kom hinn ungi Orri Guðmundsson með flotta innkomu. Eftir það tóku ÍR-ingar hinsvegar öll völd á vellinum og Stefán Orri skoraði 10 stig í röð fyrir ÍR. Áhlaup ÍR og frábær skotnýting hélt áfram og liðið fór með 19 stiga forystu til búningsklefa 63-44. Í seinni hálfleik var munurinn alltaf á bilinu 13-17 stig en Blikar náðu góðu áhlaupi undir lok leiks og gerðu allt sem þeir gátu til að gera leikinn spennandi en ÍR-ingar héldu út, 109-100 lokatölur og ÍR því tekið 1-0 forystu í einvíginu. Atkvæðamestir ÍR voru Leó Curtis með 24 stig, 11 fráköst og 6 varin skot og Lúkas Aron Stefánsson sem skoraði 23 stig í frábærri skotnýtingu ásamt því að rífa niður 7 fráköst. Hjá Blikum daðraði Sölvi Ólason við þrefalda tvennu með 31 stig, 11 stoðsendingar og 9 fráköst! Honum næstur kom Aron Elvar Dagsson með 21 stig og 16 fráköst.
Blikar freista þess að jafna á fimmtudagskvöld kl 19:15 í Smáranum á meðan ÍR geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn.
Mynd / Atli Mar
Ert þú með umfjöllun um leik úr úrslitum yngri flokka, endilega sendu hana á [email protected]