ÍR tók á móti Grindavík í Hertz-hellinum í dag í 1. deild kvenna. Fyrir leikinn voru liðin í 3. og 5. sæti deildarinnar og ljóst að von væri á hörkuleik. Það brást ekki og eftir spennandi leik hrepptu heimastúlkur sigurinn, 55-44.
ÍR byrjuðu sterkari og voru fljótar að taka forystuna á meðan að Grindavíkurstúlkur áttu aðeins erfiðara með að skora fyrir innan þriggja stiga línuna. Fyrir utan hana gekk hins vegar ágætlega og fyrstu þrjár körfur gestanna komu úr þristum. Staðan eftir fyrsta leikhluta var nokkuð jafn, 13-11 heimastúlkum í vil. Ghetto Hooligans mættu nokkrir á leikinn sem virtist í fyrstu slá þær gulklæddu aðeins út af laginu.
Grindavík komu aðeins beittari inn í næsta leikhluta, en sú sem steig upp fyrir þær var hin 15 ára Natalía Jenný Lucic Jónsdóttir. Hún skoraði 8 stig í röð fyrir Grindavík á seinustu 5 mínútunum í fyrri hálfleik. Góð lokamínúta hjá Nínu Jennýju Kristjánsdóttur (4 stig á 30 sekúndum) sá þó til þess að liðin skildu jöfn eftir 20 mínútna spil, 26-26.
Hvorugt lið spilaði mjög vel í sókninni í fyrstu eftir hálfleikshléið en bæði liðin voru reiðubúin að spila vörn. Möguleg ástæða lélegrar sóknar í leikhlutanum kann að vera sá að stelpurnar hófu seinni hálfleikinn á því að spila með bolta í karlastærð fyrstu 2 mínúturnar, sem undirrituðum fannst nokkuð fyndið. ÍR-ingar spiluðu góða vörn á Grindavík úti á velli og uppskáru 11 tapaða blóta hjá hinu liðinu, þ.a. 6 stolna bolta, í leikhlutanum. Á sama tíma meðan voru Grindvíkingar fastar fyrir í vörninni sinni og vörðu 3 skot og tóku 10 varnarfráköst í leikhlutanum. Varnar leikhlutanum lauk 11-7, ÍR í vil og staðan 37-33 fyrir lokaleikhlutann.
Í lokafjórðungnum virtust skotin hætta að detta hjá Grindavík á sama tíma og ÍR-stúlkurnar áttu sinn besta leikhluta. Grindavík náði að klóra í bakkann og koma stöðunni í fjögurra stiga mun, en þá settu heimamenn í hærri gír og kláruðu leikinn, 55-44.
Þáttaskil
Þegar 4 mínútur voru eftir af leiknum snöggkólnuðu Grindvíkingar, þær klikkuðu á seinustu 4 af 6 vítaskotum sínum og gátu ekki sett þriggja stiga skot á lokamínútunum. ÍR-ingar gengu á lagið og skoruðu 11 stig gegn einu stigi gestanna á lokakaflanum. Þar með réðust úrslitin.
Hetjurnar
Leikmennirnir sem áttu mestan þátt í sigri ÍR voru þær Nína Jenný og Hanna Þráinsdóttir, en þær skoruðu saman 13 af 18 stigum liðsins í seinasta leikhlutanum og voru tvær framlagshæstu leikmenn á vellinum að þessu sinni. Nína Jenný skoraði 14 stig, tók 9 fráköst, gaf 4 stoðsendingar, varði 3 skot og var með 15 í framlag. Hanna skoraði 16 stig, tók 9 fráköst, gaf 3 stoðsendingar, varði 3 skot og var með 14 í framlag. Hrós úr tapliðinu fær Natalía Jenný, en hún skoraði 14 stig, tók 14 fráköst (þ.a. 9 sóknarfráköst!), gaf 4 stoðsendingar og var með 11 í framlag, en hún er sem sagt 15 ára (í 9. bekk), 165 cm bakvörður úr Grindavík.
Tölfræðin lýgur ekki
Grindvíkingar duttu í smá þriggja stiga skotkeppni í leiknum, en þær tóku fleiri þrista en tveggja stiga skot og hittu því miður illa úr báðum. Þær gulklæddu hittu úr 8 af 35 í þristum og hittu úr 7 af 33 í tveggja (22,9% og 22,1% nýting). ÍR-stelpur tóku aftur á móti 64 skot innan þriggja stiga línunnar og aðeins 11 þar fyrir utan. Þær hittu ekki mikið betur en útiliðið (32,8% í tveggja, 18,2% í þristum), en þó nægilega vel til að skila sigri.
Kjarninn
Liðin hafa þá tapað jafnmörgum leikjum en ÍR eiga tvo leiki til góða (13 spilaðir leikir gegn 15 hjá Grindavík). Grindavík mættu til leiks án Angela Rodriguez í dag sem við skulum fara varlega í að túlka. Það skal þó sagt að undirrituðum finnst liðið spila betur þegar hún er ekki inn á. Þó Grindavík fari kannski ekki upp á þessu ári þá er gaman að sjá að þau eru að reyna að spila á ungum og efnilegum stúlkum. Það eru m.a.s. leikmenn úr Keflavík að koma yfir á venslasamningum til að öðlast leikreynslu, sem er gleðiefni. Kvennaboltinn heldur áfram að vaxa og dafna.