spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÍR sótti sigur í Ljónagryfjuna í háspennu leik

ÍR sótti sigur í Ljónagryfjuna í háspennu leik

ÍRingar mættu í heimsókn í Ljónagryfjuna í kvöld. Heimamenn eru í harðri baráttu um deildarmeistaratitilinn og mega engin stig missa. ÍRingar hins vegar í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni og eru sem stendur í 8. sæti með 16 stig eins og Grindavík og Haukar.

Njarðvík byrjaði leikinn betur. ÍRingar gerðu þó vel í að sleppa þeim aldrei of langt frá sér. Mario Matasovic reyndist Njarðvíkingum mjög vel og setti 9 stig og tók 3 fráköst í leikhlutanum. Staðan eftir fyrsta leikhluta 23 – 15.

ÍRingar byrjuðu annan leikhluta betur og átu niður forystu Njarðvíkinga hægt og rólega og komust yfir í fyrsta sinn um í leiknum um miðbik leikhlutans. Njarðvíkingar unnu á eftir því sem leið á leikhlutann og kláruðu leikhlutann nokkrum stigum yfir. Staðan í hálfleik 46 – 43.

Njarðvíkingar voru betri fyrstu mínúturnar í þriðja leikhluta en gestirnir komu sterkir inn. Leikhlutinn var í járnum fram á síðustu mínútu. En það voru heimamenn sem kláruðu betur. Staðan fyrir fjórða og síðasta leikhlutann 74 – 68.

Það gekk erfiðlega hjá Njarðvíkingum að finna körfuna fyrstu mínúturnar og ÍRingar sigldu fram úr. Mikil barátta var í leikhlutanum og þurfti Elvar Már aðhlynningu eftir slæma byltu þegar um 4 mínútur voru eftir. Hann var þó fljótur að jafna sig og kláraði leikinn. Lokamínútan var tauga trekkjandi og engu munaði á milli liðanna. Þegar rúmar 6 sekúndur voru eftir, skoraði Sigurður Gunnar Þorsteinsson úr seinna af tveim vítum og jafnaði leikinn 85 – 85. Njarðvíkingar nýttu sér ekki tækifæri til að vinna og því framlengt.

ÍR skoraði fyrstu stigin í framlengingu en Njarðvíkingar svöruðu. Lokasekúndurnar voru svakalegar en umdeilt atvik var á síðustu sekúndu þegar hugsanlega var brotið á Elvari Má en ekkert dæmt. ÍR sigur staðfestur. Lokatölur 95 – 98.

Byrjunarlið:

Njarðvík: Elvar Már Friðriksson, Jeb Ivey, Eric Katenda, Maciek Baginski og Mario Matasovic.

ÍR: Gerald Robinson, Kevin Capers, Matthías Orri Sigurðsson, Sigurður Gunnar Þorsteinsson og Sigurkarl Róbert Jóhannsson.

Þáttaskil:

Það er erfitt að benda á einhver þáttaskil í þessum leik. Liðin skiptust á að leiða og hvorugt lið náði teljandi forystu. Ákvarðanir ÍR á lokamínútum framlengingar tryggðu þeim sigur.

Tölfræðin lýgur ekki:

ÍRingar voru ekki að hitta eins vel og Njarðvíkingar. En þeir bættu það upp með sóknarfráköstum. 13 – 22 sóknarfráköst ÍR í vil.

Hetjan:

Eric Katenda og Mario Matasovic áttu báðir mjög fínan leik en Elvar Már Friðriksson var bestur Njarðvíkinga með 32 stig, 9 fráköst og 9 stoðsendingar.

Matthías Orri Sigurðsson, Hákon Örn Hjálmarsson og Kevin Capers áttu allir fínan leik. En Sigurður Þorsteinsson var bestur ÍRinga, setti 21 stig og tók 20 fráköst.

Kjarninn:

Frábær og mjög mikilvægur sigur ÍRinga sem var þeim nauðsýnlegur í baráttunni um að komast í úrslitakeppnina. Njarðvíkingar þurfa væntanlega að sætta sig við í besta falli annað sætið í deildinni eftir að hafa leitt hana lengi og það hlýtur að vera þeim þungur biti að kyngja.

Viðtöl:

Fréttir
- Auglýsing -