Þór Þorlákshöfn kíktu í kaffi til ÍR-manna í Hertz Hellinn nú í kvöld og úr varð æsispennandi Lengjubikarsleikur sem bæði lið hefðu getað unnið.
ÍR-ingar byrjuðu betur og komust fljótt í ágætis forskot en Þórsarar voru bæði klaufskir og óheppnir en hvað eftir annað vildi sá appelsínuguli ekki ofan í körfuna þeim megin. Heimamenn nýttu þetta ágætlega og voru komnir í 11-2 eftir rétt tæplega 4 mínútna leik og spiluðu varnarleikinn þokkalega. Leikmenn ÍR skiptu stigaskorun nokkuð jafnt á milli sín til að byrja með. Benjamin Curtis Smith skoraði svo loks fyrir gestina um miðjan leikhlutann og fékk vítaskot í kaupbæti. Þórsarar minnkuðu muninn hratt í 4 stig.
Breiðhyltingar héldu frumkvæðinu en Þór var aldrei langt undan og virtist í raun ekki þurfa nema eina feilsókn hjá heimamönnum til þess að Þórsarar gætu snúið leiknum sér í vil, en með klaufaskap og óvissu í sókn Þórsara tókst ÍR að koma sér aftur í 10 stiga forskot er Nemanja Sovic setti niður þrist. Enn var boltinn ekki að detta fyrir Þórsara sem virtust kaldir utan af velli og ósamstilltir. Virtist leikurinn vera í höndum heimamanna en gestirnir virkuðu úr takt. En skyndilega snerist vindáttin og Þórsarar komust inn í leikinn en nýttu ekki tvær sóknir til að jafna eða jafnvel komast yfir.
Í upphafi annars leikhluta komast heimamenn í 7 stiga forskot en það er ekki neinn lúxus í körfuboltanum. Guðmundur Jónsson saxaði á forskotið með þrist og var nú kominn meiri hraði í leikinn. Þegar hér var komið við sögu virtist Þór vera að vakna til lífsins sem átti möguleika á að jafna en Nemanja varði sniðskot og ÍR skoruðu úr hraðaupphlaupi. Þórsarar sneru þessu hinsvegar sér í vil og ÍR-ingar voru nú orðnir þeir klaufsku og of mikið að flýta sér. Nýi leikmaður ÍR, Isaac Miles, setti niður þrist en Guðmundur svaraði fyrir Þór með varnarmann í andlitinu. ÍR virkuðu núna þeir taktlausu og leiddu gestirnir 35-41 í hálfleik eftir að Grétar Ingi Erlendsson skoraði úr þröngu færi rétt áður en tíminn rann út. Þór höfðu síðustu mínúturnar spilað betri varnarleik og verið skynsamari í sóknarleik sínum.
Vörn heimamanna datt niður í upphafi seinni hálfleiks og komst Þór 10 stigum yfir. Virtist sem gestirnir frá Þorlákshöfn ætluðu að sigla fram úr en klaufskan elti heimamenn enn. En Miles hélt ÍR þó inni í leiknum sem svo gerðu sig líklega til að krafsa sig inn í leikinn með aðstoð múrsteinaregns frá gestunum en þessi atlaga heimamanna dugði skammt, því Þór komst aftur 11 stigum yfir á skömmum tíma þar sem Smith fór fyrir Þór. ÍR nýtti sér ekki þegar Þórsarar fóru illa af ráði sínu nokkrar sóknir í röð. Þórsarar skoruðu svo aftur rétt áður en tíminn rann út en forskotið var ekki stórt, 59-65 þegar einn fjórðungur var eftir. Leikurinn var enn galopinn.
Jón Arnar lét bæði gráklæddu flautumennina og sína menn heyra það í upphafi fjórða leikhluta en Þórsarar komust 9 stigum yfir. Það var svo um miðjan fjórðunginn sem leikurinn virtist snúast við. Darrell Flake braut af sér í sókn og var ósáttur við dómgæsluna og fleygði boltanum aftur fyrir sig. Fyrir það fékk hann tæknivillu að gjöf og ÍR nú aðeins 3 stigum undir og skömmu síðar steig Vilhjálmur Atli Björnsson út af. Allt stefndi í spenanndi lokamínútur en heimamenn virtust ætla sér að stela sigrinum. Sovic jafnar leikinn fyrir ÍR og hinumegin varð Smith of fljótur fyrir sjálfan sig og missir boltann frá sér og út af. Leikurinn virtist nú vera ÍR-inga en pirringur var kominn í leikmenn Þórs, bæði á vellinum og á bekknum.
Spennan var orðin mikil og aðeins spurning um það hvort liðið vildi sigurinn meira. Diggs varði opið skot af stuttu færi frá Vilhjálmi sem hefði getað jafnað leikinn og Smith kemur svo Þórsurum í 79-82 þegar skammt var eftir. Heimamenn þurfti nú að að skora og ná stoppi í vörn. Brotið var á Miles sem hitti aðeins úr öðru skotinu þegar rúmar 8 sekúndur voru eftir. Darri Hilmarsson hitti svo úr öðru vítaskoti sínu fyrir Þórsara sem voru nú 3 stigum yfir þegar tæpar 4 sekúndur lifðu af leiknum, 80-83. Nú var ekkert nema þristur sem dugði fyrir heimamenn og úr leikhlénu tekur Miles þriggja stiga skot, en brotið var á honum. Öll fóru niður og því framlenging.
Framlengingin hófst með vítaskotum á báða kanta sem og göngutúrum hjá báðum liðum. Darri kemur svo gestunum í 84-90 en Ellert Arnarsson svaraði fyrir Hellisbúana með sveittum þrist. Þórsarar voru þó með leikinn í höndum sér þegar tæpar 2 mínútur voru eftir af leiknum og var það Smith sem fór fyrir sínum mönnum frá Þorlákshöfn. Setti hann niður þrist sem virtist ætla að klára ÍR-ingana. Það tók Isaac Miles ekki í mál og smellti sjálfur einum þrist niður og baráttan í liði ÍR varð til þess að þeir komust aftur inn í leikinn. Virtust heimamenn ætla að ná að stela sigrinum með stórleik Miles. Slæm varnarmistök hjá Þór urðu til þess að Miles slapp í gegn og setti niður sniðskot og fékk villu dæmda, þegar aðeins 0.1 sekúnda var eftir, það skot geigaði þó og því þurfti að fara í aðra framlengingu.
Bæði lið járnuðu vítaskot í upphafi annarrar framlengingar. Þorvaldur Hauksson missti boltann út af fyrir ÍR og og smellti Flake niður þrist, Þór komast 4 yfir og byrjuðu aðra framlengingu mun betur og enn og aftur voru klaufamistökin að kosta heimamenn. Þór voru skynsamari í upphafi framlengingarinnar en barátta Breiðhyltinganna varð til þess að liðin skiptust á að leiða leikinn. Diggs kom Þór þó yfir en HjaltiFriðriksson jafnaði fyrir ÍR. Þegar tæp mínúta var eftir geigar þristur hjá Þórsurum, ÍR fá boltann og geta komist yfir, en Miles var þá í öðrum heimi og var of lengi að koma sér yfir miðlínu og tapar boltanum fyrir heimamenn. Hjalti kom heimamönnum hinsvegar yfir, 109-107 þegar 4.2 sekúndur voru eftir og tóku Þórsarar leikhlé, sem áttu nú séns á að vinna leikinn með þrist, en Smith steig út af og braut svo á Miles sem tryggir ÍR tæpan sigur með vítaskoti, 110-107 í æsispennandi leik.
Isaac Miles fór mikinn fyrir heimamenn og setti niður 38 stig, 2 stolna bolta og var með 4 af 7 þristum niður. Hann tapaði þó boltanum 6 sinnum og var aðeins með 1 frákast. Sovic kom næstur með 17 stig og 8 fráköst. Hjalti var öflugur í fráköstunum, tók 11 slík og var auk þess með 14 stig. Sveinbjörn Claessen var með 13 stig og átti 7 stoðsendingar.
Hjá Þór var Benjamin Smith atkvæðamestur með 31 stig, 5 stoðsendingar, 3 stolna bolta og 3 af 5 í þristum, en líkt og Miles var hann með sleipar hendur og tapaði boltanum 8 sinnum. Diggs kom næstur með 29 stig, 9 fráköst, 3 varin skot og með 11 af 12 skotum niður. Flake var með 14 stig, 12 fráköst og 2 stolna bolta.
Umfjöllun/ Arnar Freyr Böðvarsson