ÍR tók á móti Grindavík í lokaumferð Subway deildar kvenna í Skógarseli í kvöld. Fyrir leik var ljóst að ÍR voru fallnar úr deildinni, en að Grindvíkingar myndu ekki komast í úrslitakeppnina. Því var um að ræða lokaleik beggja liða á tímabilinu, þar sem stoltið eitt var í húfi.
Heimakonur voru mun sterkari aðilinn framan af leik og höfðu 11 stiga forskot fyrir lokafjórðunginn, 64-53.
Gestirnir vöknuðu hins vegar loksins til lífsins í fjórða leikhluta. Grindavík át upp forskot heimakvenna, og þegar þrjár sekúndur lifðu af leiknum var staðan jöfn, 76-76. Grindvíkingar brutu á Greetu Uprus sem innsiglaði eins stigs sigur ÍR á vítalínunni, lokastaðan 77-76.
Stigahæst í liði ÍR var Greeta Uprus með 19 stig, en í liði gestanna var Danielle Rodriguez með 23 stig.
Bæði lið hafa lokið keppni í Subway deildinni í ár.