spot_img
HomeFréttirÍR Íslandsmeistari í 9. flokki karla

ÍR Íslandsmeistari í 9. flokki karla

ÍR er Íslandsmeistari í 9. flokki karla eftir hádramatískan úrslitaleik gegn Keflavík í Smáranum í dag. Úrslitin réðust á flautukörfu frá Haraldi Bjarna Davíðssyni þar sem lokatölur voru 55-56 ÍR í vil. Keflvíkingar virtust vera með pálmann í höndum sér en ÍR-ingar gáfust ekki upp og unnu magnaðan sigur og eru því tvöfaldir meistarar, Íslands- og bikarmeistarar 2014. Hákon Örn Hjálmarsson leikmaður ÍR var valinn besti leikmaður úrslitaleiksins með 21 stig, 18 fráköst, 4 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Dómarar leiksins þurftu að skera úr um úrslit leiksins eftir myndbandsupptöku þar sem um flautukörfu var að ræða og stóð allur Smárinn á öndinni á meðan beðið var eftir úrskurði dómaranna. 
 
 
Þetta var í fimmta sinn á tímabilinu sem ÍR og Keflavík mættust, liðin höfðu bæði unnið tvo leiki til þessa svo segja má að þetta hafi allt eins verið oddaleikur liðanna um titilinn.
 
Arnór Sveinsson var beittur í liði Keflavíkur í upphafi leiks en góð barátta hjá Haraldi Bjarna Davíðssyni í liði ÍR-inga smitaði fljótt út frá sér og drengirnir úr Breiðholti leiddu 11-12 eftir fyrsta leikhluta.
 
Í öðrum leikhluta slitu ÍR-ingar sig frá 11-17 undir styrkri stjórn Hákons Arnar Hjálmarssonar en Keflvíkingar létu ekki stinga sig af og tveir þristar með skömmu millibili frá Stefáni Ljubicic jöfnuðu fyrst metin 17-17 og minnkaði svo muninn í 22-19 en þessi rispa Keflvíkinga tók snöggan endi. ÍR-ingar mættu með grimma pressu undir lok annars leikhluta og þvinguðu Keflvíkinga í töluverð vandræði og leiddu fyrir vikið 26-35 í hálfleik.
 
Keflvíkingar færðust nærri ÍR með hverri mínútunni í þriðja leikhluta þar sem þeir Arnór og Stefán drógu vagninn og að sama skapi var Hákon Arnar kominn í nokkur villuvandræði hjá ÍR. Staðan 44-47 fyrir ÍR fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.
 
Keflvíkingar jöfnuðu snemma í fjórða leikhluta, 48-48, og við það óx þeim ásmegin, komust í 53-50 og síðar í 55-51. Lokaspretturinn varð æsispennandi, ÍR-ingar brenndu af þremur afar mikilvægum vítaskotum en náðu að minnka muninn í 55-54 eftir vítaskot frá Skúla Kristjánssyni en hans síðara víti geigaði og ÍR náði sóknarfrákastinu, Hákon Örn reyndi skot í teignum, það geigaði og um leið og tíminn var að renna út náði Haraldur Bjarni Davíðsson sóknarfrákastinu og skoraði viðstöðulaust, flautukarfa og 55-56 sigur ÍR-inga í höfn! Hreint út sagt hádramatískur úrslitaleikur. Eins og áður segir var beðið eftir video-úrskurði dómaranna og óhætt að segja að gríðarleg spenna hafi verið í loftinu á meðan dómarar leiksins fóru yfir myndbandsupptöku af sigurkörfu Haraldar Bjarna.
 
Arnór Sveinsson var með 25 stig og 11 fráköst í liði Keflavíkur og Stefán Ljubicic bætti við 15 stigum og 11 fráköstum. Hjá ÍR var Hákon Örn Hjálmarsson með 21 stig, 18 fráköst og 4 stoðsendingar og Skúli Kristjánsson bætti við 19 stigum og 5 fráköstum en hetja ÍR-inga í dag, Haraldur Bjarni Davíðsson, var með 10 stig og 9 fráköst og viðeigandi að þessi baráttumaður hefði gert sigurstigin eftir hvað annað en… jú, sóknarfrákast!
 
 
Hákon Örn Hjálmarsson besti leikmaður úrslitaleiksins ásamt Hannesi Jónssyni formanni KKÍ
Fréttir
- Auglýsing -