spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÍR-ingar neituðu að fara í frí í kvöld

ÍR-ingar neituðu að fara í frí í kvöld

ÍR lagði Stjörnuna í Umhyggjuhöllinni í kvöld í þriðja leik átta liða úrslita Bónus deildar karla.

Með sigrinum kom ÍR í veg fyrir snemmbúið sumarfrí sitt, en staðan er nú 2-1 í einvíginu fyrir Stjörnunni.

Eftir nokkuð spennandi upphafsmínútur náði ÍR að vera skrefinu á undan að lokum fyrsta leikhluta, 23-27. Leikurinn er svo áfram jafn og spennandi til loka fyrri hálfleiks, en ÍR er þó enn á undan þegar liðin halda til búningsherbergja, 46-54.

ÍR-ingar setja svo fótinn á bensíngjöfina í upphafi seinni hálfleiksins. Ná mest 18 stiga forystu, en heimamenn halda þessu í leik inn í lokaleikhlutann, 67-77. Á lokamínútum leiksins nær Stjarnan hægt og bítandi að vinna muninn niður. Fá svo góð tækifæri til að vinna leikinn eða koma honum í farmlengingu á lokasekúndunum, en allt kemur fyrir ekki. ÍR fer með sigur af hólmi, 87-89.

Atkvæðamestir í liði ÍR í leiknum voru Zarko Jukic með 20 stig, 11 fráköst, 4 stoðsendingar og Matej Kavas með 25 stig og 6 fráköst.

Fyrir Stjörnuna var Ægir Þór Steinarsson atkvæðamestur með 21 stig, 7 fráköst og 8 stoðsendingar. Þá bætti Hilmar Smári Henningsson við 24 stigum og 7 fráköstum.

Líkt og tekið var fram framlengdi ÍR einvíginu um einn leik hið minnsta með sigrinum í kvöld. Stjarnan getur þó klárað einvígið og tryggt sig áfram í undanúrslitin með sigri í næsta leik, en hann fer fram á heimavelli ÍR í Skógarseli komandi mánudag 14. apríl.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -