21:30
{mosimage}
Grindvíkingar eru komnir í undanúrslit Iceland Express deildar karla eftir öruggan 71-85 sigur á ÍR í Hellinum í Breiðholti. Grindvíkingar unnu fyrstu viðureign liðanna nokkuð örugglega en þurftu að hafa meira fyrir hlutunum í kvöld. Páll Axel Vilbergsson og Nick Bradford voru stigahæstir í liði Grindavíkur báðir með 21 stig en Hreggviður Magnússon var með 17 stig í liði ÍR og Steinar Arason gerði 16. Grindvíkingar eru s.s. komnir áfram en ÍR-ingar hafa lokið keppni á þessari leiktíð.
Páll Axel Vilbergsson stimplaði sig inn með glans í Hellinum í kvöld en hann setti þrjá þrista í röð fyrir Grindavík sem leiddu snemma gegn ÍR 6-13. Vörn Grindavíkur var með besta móti í fyrsta leikhluta en Ómar Sævarsson barðist af krafti fyrir ÍR en hann átti eftir að koma mikið meira við sögu í Breiðholtinu í kvöld. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 16-29 fyrir Grindavík og benti flest til þess að gulir ætluðu að stinga snemma af.
Þorleifur Ólafsson kom vel gíraður af bekknum hjá Grindavík og gerði góðar körfur en eftir því sem leið á leikhlutann óx ÍR-ingum ásmegin. Eiríkur Önundarson leiddi áhlaup ÍR og minnkaði muninn í 30-37 með þriggja stiga körfu og vörn heimamanna var talsvert betri en í fyrri hálfleik. Ómar Sævarsson barðist vel og var kominn með 14 stig og 8 fráköst fyrir ÍR í hálfleik en þar leiddu Grindvíkingar 38-42 og því unnu heimamenn leikhlutann 22-13. Nick Bradford var kominn með 11 stig og 7 fráköst í liði Grindavíkur í hálfleik og eftir þennan góða lokasprett ÍR-inga var búist við látum í síðari hálfleik.
Páll Axel Vilbergsson lét sér nægja að opna síðari hálfleikinn með ,,aðeins“ tveimur þristum í röð og því leiddu Grindvíkingar 38-48. Í stöðunni 40-51 fyrir Grindavík gerðist nokkuð sem allir héldu að myndi knésetja ÍR-inga. Ómar Sævarsson var þá ósáttur við dómgæsluna þegar tæpar fjórar mínútur voru liðnar af síðari hálfleik og uppskar réttilega tæknivillu. Ómar lét sér ekki segjast, hélt áfram að mótmæla og uppskar aðra tæknivillu og því brottrekstur út úr húsinu. Mjög óskynsöm ákvörðun hjá jafn leikreyndum leikmanni og Ómar er, en hann hafði átt stjörnuleik fram að þessu atviki.