Undirritaður er Stígur Berg Sophusson; leigubílstjóri, skipstjóri, vélstjóri og starfsmaður rútufyrirtækisins Vestfjarðaleiðar. Já, og áhugamaður um körfubolta.
Þó svo að körfuboltaferill minn hafi aldrei verið einhver leið að frægð og frama eða að gífurlegum afrekum þá hef ég þrifist í þessu samfélagi körfuboltans hér á Ísafirði frá því ég var lítill polli.
Eitt af því sem við á landsbyggðinni þurfum endalaust að berjast við eru veðurskilyrði, erfiðir vegir, snjóflóðahætta o.fl. Þetta eru hlutir sem við sættum okkur við því við elskum að búa á þessum yndislega stað og hér reynum við að halda úti fjölbreyttu íþróttamannlífi fyrir unga sem aldna.
Að sjálfsögðu er erfitt oft á tíðum hjá fjölmörgum landsbyggðarliðum að manna sín keppnislið, við missum fólk suður í skóla og m.a.s. til útlanda. Þá tala ég nú ekki um þegar verið er að halda úti áhugamannaliðum eins og Vestra b. Þar eru vinnandi menn í bland við skólastráka.
Nú síðastliðna helgi lá það nokkuð ljóst fyrir að veður og aðstæður myndu verða slæmar, svo Vestri b bað um frestun á leik sínum, enda menn þar á bæ alvanir að meta aðstæður! Ekki fékkst frestun hjá mótastjóra KKÍ.
Nú hef ég sjálfur marg oft ferðast á milli í allskyns veðrum, oft um hánótt eftir leiki fyrir sunnan, í kraft galla með skóflu mokandi út eigin bíl og annarra, til að komast leiðar minnar (og liðsins).
Þegar menn eru svo komnir á það stig að vera foreldrar, spilandi í b-liði áhugamanna, eða bara táningar sem ráða sér ekki sjálfir, þá getur verið ansi erfitt að ná í lið til að ferðast þegar viðvarandi er snjóflóðahætta gefin út af veðurstofunni, kafaldsbylur, og leiðindaspá framundan. Þá er það nú bara vel skiljanlegt að menn ferðast ekki í leik sem auðvelt er að finna annan tíma fyrir.
Þá er komið að því sem við á landsbyggðinni ættum ekki að þurfa að berjast við líka. Einhver sem situr inn á skrifstofu á höfuðborgarsvæðinu, ég leyfi mér að ímynda mér það að hann sé með rjúkandi heitann kaffibolla og sjái sól og blíðu fyrir utan gluggan hjá sér. Það er mótastjóri KKÍ, hann skilur það ekki að Ísfirðingar geti ekki keyrt á Hvammstanga til keppa körfuboltaleik á laugardegi?!?!
Ég ætla að leyfa mér að vona að þetta sé eingöngu vegna upplýsingaleysis/áhugaleysis mótastjórnar KKÍ um veðuraðstæður á Vestfjörðum á tilteknum tíma. Það var jú bikarhelgi og margt annað að gera.
Ef að mótastjórn KKÍ var vel upplýst um veður, aðstæður og viðvarandi snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum (gefna út af Veðurstofu Íslands), þá er eitthvað mikið að í verklagi hjá þeim sem þarf að laga hið snarasta!
Ég er alveg á því að enginn ferðast landshlutanna á milli eingöngu sér til skemmtunar með góðum vinum í viðvarandi snjóflóðahættu og kafaldsbyl.
Vonandi sér mótastjóri að sér sem fyrst og lagar þessi mistök sem fyrst sem 20-0 sigur Kormáks gegn Vestra b er.