11:30
{mosimage}
Þeir sem hafa fylgst með FSu undanfarin ár hafa eflaust tekið eftir ungum og áhugasömum þjálfar í kringum liðið. Sá heitir Arnar Guðjónsson en nú er hann hættur hjá FSu. Karfan.is heyrði í honum og spurði afhverju hann væri hættur hjá FSu.
„ Ég ákvað að nú þyrfti að drífa námið af og ég ætla að klára stúdentinn á þessari önn. Er að taka slatta af áföngum og því var ekki möguleiki að vera að þjálfa svona mikið með þessu.”
En hvað tekur við?
„ Það er bara skólinn sem tekur við núna, spurning hvort maður taki fram skóna og fari að sprikla eitthvað í Borganesi.”
Þess má geta að Arnar hóf ferilinni með Reykdælum og lék þar upp yngri flokkana en hélt þá Akureyri og lék með Þór og eftir það fór hann til Hafnar í Hornarfirði þar sem hann þjálfaði hjá Sindra á meðan körfuboltastarfið var í blóma þar. Síðustu tvö árin hefur hann svo verið hjá FSu.
En hvert er stefnan sett?
„Ég stefni á að ná mér í menntun og reikna með að fara í íþróttakennaranámið. Síðan stefnir maður bara á að hella sér að fullu aftur í þjálfunina.”
Hvernig þér líst á boltann í vetur í Iceland Express deildunum?
„Það er auðvitað mjög gott fyrir deildina að fá atvinnumennina heim, en á móti kemur að fækkun útlendinga veikir deildina til muna og ég get ekki sagt að það séu margir kostir við það. Bestu leikmennirnir fá minni samkeppni og æfingahópar félaga eru lélegri. Ég trúi heldur ekki að það liggi svona á að þessir 15-16 ára guttar séu að spila með meistarflokki, við erum nú með yngri flokka alveg upp í 20 ára. Iceland Express deild kvenna er reyndar búin að vera mjög skemmtileg í vetur, mjög jöfn deild og margir skemmtilegir leikmenn í deildinni.”
{mosimage}
Hvað með yngri flokkana?
„Yngri flokkarnir eru líkt og áður stórskemmtilegir og held ég að fólk ætti að vera duglegra að gera sér ferð til að fylgjast með öllu því efnilega körfuboltafólki sem við eigum. Ég held að það værri sterkur leikur að reyna að auka umfjöllun á elstu flokkum yngriflokka, sérstaklega ef við fáum aftur útlendinga í Iceland Express deildina, því ég tel að með betri umfjöllun á yngri flokkum gættum við fengið fleiri iðkendur og haldið þeim lengur sem velja körfuboltann.”
Hvernig finnst þér hlúð að yngri landsliðum, væri hægt að gera eitthvað betur að þínu mati?
„Það er margt jákvætt í yngri landsliðum, við eigum marga frambærilega leikmenn sem hefur sést á frábærum árangri á síðustu Norðurlandamótum. Vona samt innilega að við náum að senda liðin okkar aftur á Evrópumót, einnig væri gaman ef tækist að endurvekja undir 20 ára liðin.
Hinsvegar finnst mér dapurt að einungis sé einn þjálfari með hvert landslið, samanber því að 86, 87 og 88 liðin höfðu þrjá topp þjálfara. Þegar er verið að velja 25 krakka í æfingarhóp sé ég ekki hvernig einn þjálfari á að geta kennt þeim mikið.
Mér hefur oft þótt vera smá innherja lykt af öllu í kringum yngri landslið og eftir að hafa nefnt þetta við nokkra menn sem hafa verið lengur í þessum bransa en ég, virðist eins og ég hafi nú eitthvað til mín máls.
Framtíðin er þó björt og mikill efniviður til staðar, var eimitt að koma af stórskemmtilegu móti hjá Haukunum þar sem margir framtíðar unglingalandsliðsmenn voru að spreyta sig.”
Hvað áttu við með innherjalykt?
„Mér finnst sumir menn sitja í nokkuð öruggum sætum í kringum landsliðin. Síðan finnst mér einnig að sum lið hafi betri aðgang að yngri landsliðum og mér finnst ekki sniðugt þegar landliðsþjálfarar hafa nýtt sér stöðu sína og ferðir með landsliði til að krækja í leikmenn fyrir sín félagslið. Það finnst mér vera mjög dapurt, þar sem landsliðsþjálfarar eru að vinna fyrir öll aðildarfélög KKÍ, ekki fyrir sín eigin félög."
Viltu nefna einhvern nöfn?
„Nei ég vil það ekki, tel mig ekki þurfa þess, en þeir taka þetta til sín sem eiga það. Mér hefur fundist vera „höfðuborgarbusiness” í kringum þetta. Ég vil meina að ég sé að segja það sem margir aðrir hafa ekki þorað að segja. Margir erlendir þjálfarar sem hafa komið hingað til lands og má segja að séu mjög hlutlausir hafa talað um klíku í kringum þetta."
Myndir: Arnar Guðjónsson