Grindvíkingar hafa verið án heimavallar síns í Grindavík síðan í lok árs 2023. Þrátt fyrir það hefur félaginu tekist að starfrækja meistara og nokkra yngri flokka, en félagið á bæði lið í Bónus deild karla og kvenna.
Að einhverju leyti náði félagið í samstarfi við Breiðablik að búa sér til heimavöll í Smáranum í Kópavogi. Þar hafa meistaraflokkar þeirra leikið síðasta rúma árið, en flestum ætti enn að vera vel í minnum eftirminnilegt lokaeinvígi úrslitakeppni Bónus deildar karla á síðustu leiktíð þar sem Grindvíkingar fylltu Smárann leik eftir leik.
Það sem af er tímabili hefur verið mikið tal um að mögulega leggi félagið árar í bát með meistaraflokka sína eftir yfirstandandi tímabil, en engan myndi álasa í þeim efnum, þar sem liðið hefur í raun verið án heimabæjar síns og vallar þessi síðustu misseri.
Til þess að draga allan vafa af slíku tali sló Karfan á þráðinn til Ingibergs Þórs Jónassonar formanns deildarinnar og spurði hann út í hvernig hefði gengið þetta síðasta rúma ár, hver stemningin væri á þessu tímabili og hvernig hann sæi næsta tímabil fyrir sér.
Varðandi hverju sé að þakka að hlutirnir hafi gengið upp hingað til sagði Ingibergur: ,,Það er hægt að rita upp langan lista af þökkum til ansi margra en starfið getur ekki gengið án þess að vera með frábæra stjórn, geggjaða sjálfboðaliða, lið sem eru til í að takast á við allskonar áskoranir og bakhjarla sem hafa verið okkur ótrúlega hliðholl á þessum erfiðu tímum sem eiga miklar þakkir fyrir. Það má einnig þakka Blikum fyrir að hlúa að okkur en þau hafa öll með tölu reynst okkur afar vel.”
Líkt þeim er von og vísa hafa lið Grindavíkur gert ágætlega það sem af er tímabili. Bæði fóru þau þó frekar hægt af stað, en hafa verið að ná vopnum sínum með rísandi sólu og eru bæði til alls líkleg á vormánuðum. Varðandi stemninguna innan félagsins sagði Ingibergur: ,,Við erum Grindavík og eigum svo auðvelt með að trúa á það gula þannig að stemmningin er mikil og við ætlum okkur langt sem ég held ég að allir viti. Við reyndar trúum því öll flest alltaf að við náum langt à hverju tímabili þannig að það er ekkert nýtt að við séum að horfa langt núna. Stemmningin er upp á tíu, smá hnökrar andlega sem ég held að allir skilji vel eftir fráfall Óla Jó en hann var auðvitað faðir körfuboltans í Grindavík.”
Aðspurður hvort hann héldi að Grindavík myndi leggja árar í bát eftir tímabilið og hvernig hann sæi framhaldið fyrir sér sagði Ingibergur: ,,Ég held og vona að það verði ekki rödd sjálfboðaliðans að bregðast samfélaginu með því að leggja árar í bát og ég hef sagt það opinberlega að á meðan þetta er hægt þá munum við gera þetta áfram fyrir samfélagið. Einhverjir leikmenn eru með lengri samning en bara þetta yfirstandandi tímabil og eins er það með styrktaraðilana. Við ætluðum að vinna titil í fyrra en svo fór sem fór en það er markmiðið í ár. Hvort sem það tekst eður ei þá vona ég að einhver taki við keflinu ef það yrði t.d breyting á stjórn. Framtíðin er auðvitað óljós en okkur langar heim, og hefur langað það síðan við kvöddum bæinn okkar. Ef það gengur eftir að laga planið fyrir utan höllina okkar þá gætum við farið heim og spilað leiki þar í úrslitakeppninni sem yrði stórkostlegt. Hver myndi ekki vilja mæta á stóran leik heima í Grindavík þar sem við myndum gera eitthvað stórt saman. Nú gangi þetta ekki eftir þá höldum við áfram með samtalið við Breiðablik. Ég held að við séum velkomin að vera þar áfram, það er allavegna það sem ég skynja.”