Ingi Þór Steinþórsson þjálfari U18 landsliðs kvenna var að vonum gríðarlega sáttur við lið sitt eftir sigur á Portúgal í vikunni. Liðið hefur þar með unnið báða leiki sína í B-deild evrópumóts U18 landsliða sem fram fer í Bosínu.
„Vinnslan í liðinu var frábær. Byrjuðum alveg skelfilega, vorum hræddar og stífar og lendum undir strax í fyrsta leikhluta. Svörum því gríðarlega vel og náðum yfirhöndinni í öðrum leikhluta og slepptum því ekkert. Var sérstaklega ánægður með það.“ sagði Ingi Þór um frammistöðu síns liðs og bætti við um styrkleika andstæðinganna:
„Portúgal er með gott lið með margar efnilegar stelpur auk þess sem Maggi Mix þjálfari þeirra er hátt metinn.“
„Verðum að koma grimmari inn og ráðast á andstæðinginn. Getum lagað ýmislegt en sigurinn er sultugóður. Erum í erfiðum riðli en það er það sem við viljum erfið og krefjandi verkefni.“
„Erum með flottar stelpur í okkar liði. Hlutir eru farnir að smella hjá okkur núna sem voru ekki að gera það á norðurlandamótinu. Þurfum að fá framlag frá öllum og fengum það nánast í dag.“
Íslenska liðið mætir sínu heimakonum í Bosníu kl 16:30 á morgun (26. júlí). Með sigri fer liðið langt með að tryggja sér áfram í úrslitakeppnina.
Viðtal / Sigríður Inga Viggósdóttir
Texti / Ólafur Þór Jónsson