Gestgjafi helgarinnar er enginn annar en Ingi Þór Steinþórsson, lukkudísirnar smelltu feitum kossi á kappann í bikardrættinum því Snæfell fékk tvo heimaleiki í undanúrslitum bikarsins. Kvennaliðið ríður á vaðið í dag þegar það tekur á móti Keflavík í Stykkishólmi kl. 15:00. Það lið sem hefur betur í dag leikur til bikarúrslita gegn Valskonum og kemst í með Val í sögubækurnar fyrir þær sakir að Valskonur eru í fyrsta sinn að leika til úrslita í bikarkeppni kvenna.
Við vorum snarleiðréttir strax í fyrstu spurningu, Ingi Þór vitaskuld með hlutina á hreinu en þetta gekk betur í næstu spurningum á eftir, hressandi.
Snæfell aldrei unnið Keflavík þetta tímabilið? Ekki kominn tími á að breyta því?
Við erum búnar að sigra Keflavík einu sinni á þessu tímabili þegar að við tryggðum okkur Lengjubikartitilinn á þeirra heimavelli! Þannig að stefnum bara á sigur á laugardag.
Snæfell fór í Höllina í fyrra og tapaði í hörkuleik, verður þú var við hungur í þínum hópi?
Úrslitaleikurinn í fyrra gat farið á hvorn veginn sem var, flottur leikur þar sem við náðum okkur í mikla reynslu. Stelpurnar eru metnaðarfullar og hungraðar að standa sig og það vilja allir leikmenn taka þátt í þessum degi svo ég verð að svara þessu játandi!
Hver er þessi herslumunur sem ykkur hefur vantað til að vinna Keflavík?
Við höfum verið að nýta illa vítaskot gegn þeim og þær hafa verið að sigra okkur á skotum þeirra fyrir utan þriggjastiga línuna. Þetta eru jöfn lið og það þurfa allir leikmenn að vera á tánum og leggja til hliðar dagsins amstur, það verður hart barist.
Verður ekki fjölmenni á leiknum, komin spenna fyrir þessu í Hólminum?
Stelpurnar eiga skilið að fá góðan stuðning á leikinn, það er engin spurning að hvatning frá áhorfendum eflir sjálfstraustið sem er öllum leikmönnum gríðarlega mikilvægt. Ég skora á Hólmara að leggja niður pönnukökubakstur um kaffileytið á laugardag og öskra úr sér lungun til að styðja dömurnar áfram í Höllina.