Hólmarar skelltu sér á topp Domino´s deildar karla í kvöld með 86-76 sigri gegn botnliði Tindastóls. Karfan.is náði tali af Inga Þór Steinþórssyni þjálfara toppliðsins sem kvaðst sáttur við stöðu liðsins í deildinni en sagði að margt þyrfti að gera betur ef Snæfell ætlaði að ,,hanga þarna uppi.”
,,Það var stemmning í Tindastólsliðinu og þeir voru staðráðnir í því að ná í sinn fyrsta sigur en við héldum alltaf í trúnna og náðum að klára þetta. Liðin skiptust á forystu í þriðja leikhluta og við vorum við það á kafla að missa þá fram úr okkur en baráttan í Sveini Arnari var okkur til happs. Stórar körfur frá Hafþóri og Pálma fóru langt með þetta í kvöld og við það þéttist varnarleikurinn en stóru mennirnir okkar voru í villuvandræðum. Við höfðum trú á þessu allan tímann og erum komnir á toppinn, ánægðir með þetta dagsverk þó þessi tvö stig hafi ekki verið falleg,” sagði Ingi en hver er staðan á töframanninum Pálma sem meiddist á dögunum?
,,Pálmi er ekki búinn að ná fyrri styrk, á langt í land með það en það er jákvætt að hann er kominn á gólfið og hann gefur okkur ákveðna vídd og er liðinu mikilvægur en það er enn langt í land. Hann fékk högg á andlitið í kvöld en það slapp,” sagði Ingi og bætti við aðspurður hvort Snæfell þyrfti ekki að fá sér hnjaskvagn í húsið: ,,Nei nei, ég er hnjaskvagninn,” sagði Ingi sposkur en það vakti eftirtekt þegar þjálfarinn bar Hildi Sigurðardóttur meidda af velli á síðustu leiktíð. Fjölhæfur þessi Ingi Þór.
,,En við erum sáttir við hvar við erum en vitum þó að við þurfum að gera betur til að hanga þarna uppi og við erum alltaf að vinna í því.”