Vorið 2023 lögðum við áherslu á að nálgast frelsið í íslenskum körfubolta af ábyrgð. Í grein okkar þá vöktum við athygli á þeirri hættu að ungir, efnilegir leikmenn fengju fá tækifæri til að þróast. Við hvöttum til áherslna sem tryggðu að íslenskir leikmenn fengju vægi. Nú, rúmu ári síðar, blasir við að þróunin hefur haldið áfram í öfuga átt.
Núverandi staða
Efsta deild karla í körfubolta er í dag atvinnumannadeild í öllum skilningi. Erlendir leikmenn eru orðnir undirstaða liða, og sögur herma að leikmenn frá Evrópu margfaldi laun sín með því að koma hingað. Þetta sýnir styrk deildarinnar en einnig hversu ósjálfbær hún er.
Ýmsar staðreyndir vekja ugg.
- Undantekning að fleiri en einn íslenskur leikmaður sé í byrjunarliði liðs í úrvalsdeild.
- Launakostnaður hefur aldrei verið hærri og heldur áfram að vaxa.
- Meðaltalsframlag mikilvægasta leikmanns undir 20 ára er aðeins 6 framlagsstig á leik og hefur sjaldan eða aldrei verið minna.
- Óraunhæft er að halda úrvalsdeildarsæti án þess að hafa fjölda erlendra atvinnumanna sem burðarása
- Íslenskir leikmenn utan landsliðsklassa leika lítið sem ekkert hlutverk í úrvalsdeild
- Leikmenn sem ná miklum árangri á venslum í fyrstu deild sjá varla gólfið í úrvalsdeild.
Þessi þróun hefur eytt möguleikum ungra leikmanna í úrvalsdeild.
Áhrif á framtíð íslensks körfubolta
Þróunin í átt að atvinnumannadeild hefur verið hraðari en margir bjuggust við. Erlendir leikmenn eru fleiri, rekstrarkostnaður liða hækkar stöðugt, og hlutverk íslenskra leikmanna verður æ minna. Þessar breytingar ógna ekki aðeins þátttöku Íslendinga heldur einnig fjárhagslegri sjálfbærni deildanna.
Við verðum einnig að horfa á sama mynstur í 1. deild. Fjöldi erlendra leikmanna hefur aukist og launakostnaður þar er einnig á hraðri uppleið. Ef þessi þróun heldur áfram verður körfubolti einfaldlega áhugamál barna og unglinga, en ekki lengur vettvangur fyrir fullvaxta íslenskt íþróttafólk.
Kostir og valkostir framundan
Hreyfingin þarf að taka ákvarðanir núna um hvaða framtíð hún vill búa íslenskum körfubolta. Hér eru þrír valkostir:
- Efsta deild verður áfram hrein atvinnumannadeild með dvinandi þátttöku íslenskra leikmanna. Sveitarfélög verða að ákveða hvort þau vilji fjármagna slíkt íþróttamódel án tengingar við nærsamfélagið. Þessi vegferð mun óhjákvæmilega leiða til meiri rekstrarkostnaðar og takmarkaðrar þátttöku samfélagsins, þar með sjálfboðaliða.
- Hámarksfjöldi erlendra leikmanna eða “non-homegrown leikmanna” hvers liðs. Þetta myndi skapa svigrúm fyrir íslenska leikmenn til að spila lykilhlutverk og draga úr kostnaði. Hins vegar munu liðin sem hafa lítið úrval leikmanna úr að spila standa frammi fyrir áskorunum við að manna lið.
- Hlutverk 1. deildar og unglingaliða eflt. Fyrsta deild gerð að þróunardeild ungra leikmanna með kröfu um þar séu rekin U-lið úrvalsdeildarfélaga, með virku og víðfeðmu venslafyrirkomulagi milli deilda. Þessi leið getur skapað aðstæður fyrir unga leikmenn til að fá meiri spilatíma og vaxa í hlutverkum sínum án þess að veikja samkeppnishæfni úrvalsdeildarinnar og hægt á brottfalli ungra leikmanna með auknum tækifærum til þátttöku í meistaraflokki. Blanda mætti saman leið 3 við aðrar leiðir.
Gerum eitthvað í þessu ef við viljum gera eitthvað í þessu
Við stöndum á tímamótum. Áframhaldandi stefna óhefts frelsis hefur þegar sýnt okkur neikvæð áhrif og gjöreyðingu á möguleikum ungra leikmanna. Enn er þó tími til að snúa við blaðinu.
Ef við viljum efla viðgang íslensks körfubolta umfram barnastarf þurfum við stefnu sem tryggir að íslenskir leikmenn fái tækifæri til að dafna, að deildin verði sjálfbær, og að fjárfesting í körfubolta byggi á samhengi við íslenskt samfélag. Valin leið þarf að vera með skýr markmið, markviss og byggð á sameiginlegu átaki liða, leikmanna, hreyfingarinnnar og stjórnvalda.
Það er undir okkur komið að velja hvort íslenskur körfubolti verði vettvangur alþjóðlegra atvinnumanna eða vettvangur íslensks íþróttafólks.
Sköpum framtíðina sem við viljum skapa.
Yfir til ykkar.
Björgvin Ingi Ólafsson
Darri Freyr Atlason