Nýliðar ÍR lögðu Keflavík í kvöld í Blue höllinni í 17. umferð Bónus deildar karla, 81-90. Eftir leikinn er ÍR í 4. til 8. sæti deildarinnar með 16 stig á meðan Keflavík er sæti neðar í 9. til 10. sætinu með 14 stig.
Fyrir leik
Nokkuð stórar fréttir í kringum bæði lið fyrir leik kvöldsins. Hjá Keflavík hafði Pétur Ingvarsson sagt starfi sínu lausu síðasta mánudag eftir rúmt eitt og hálft tímabil með liðið. Aðstoðarþjálfarinn Magnús Þór Gunnarsson var því við stjórnvölinn í kvöld, en þetta mun hafa verið fyrsti leikur hans sem aðalþjálfari liðsins. Einnig var Callum Lawson aftur kominn í lið Keflavíkur, en hann lék síðast fyrir liðið tímabilið 2019-20.
Þá vantaði í lið ÍR lykilleikmann í Matej Kavas, en hann var í gær dæmdur í eins leiks bann fyrir háttsemi sína í síðustu umferð Bónus deildarinnar. Munaði það um minna fyrir ÍR liðið, en Matej hefur verið einn allra besti leikmaður deildarinnar það sem af er tímabili.
Gangur leiks
Gestirnir úr Breiðholti byrjuðu leikinn af miklu krafti og voru komnir með 13 stiga forystu eftir aðeins nokkurra mínútna leik, 2-15. Heimamenn náðu þá að stöðva blæðinguna, vinna aðeins á forskotinu, en samt munar 8 stigum að fyrsta fjórðung loknum, 21-29. Munaði ÍR mikið um Dani Koljanin á þessum fyrstu mínútum leiksins, en hann setti 10 stig í fyrsta leikhlutanum.
ÍR gerir áfram vel í öðrum fjórðungnum. Gera alla litlu hlutina sem þarf til þess að vinna körfuboltaleiki, fara á eftir fráköstum, henda sér á lausa bolta og spila fantavörn. Undir lok hálfleiksins fá heimamenn þó nokkur skot til að detta og er leikurinn því nokkuð jafn þegar liðin halda til búningsherbergja, 42-49.
Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Remu Emil Raitanen með 11 stig á meðan Dani Koljanin var kominn með 12 stig fyrir ÍR.
Keflvíkingar eru ekki lengi að vinna niður forskot ÍR í upphafi seinni hálfleiksins og með þristi frá Igor Maric komast þeir í fyrsta skipti yfir í leiknum þegar tæpar sex mínútur eru eftir af þriðja fjórðung, 55-53. Leikurinn er svo í járnum út þriðja, en þegar hann er á enda er ÍR skrefinu á undan, 64-69.
ÍR-ingar eru svo með góð tök á leiknum í upphafi fjórða leikhlutans. Ná að keyra forskot sitt í 14 stig þegar fjórðungurinn er um það bil hálfnaður, 72-86. Á þeim kafla er óhætt að segja að Keflavík hafi verið undir í allri baráttu leiksins. Augljósast kannski hvað þeir fráköstuðu illa og hvað vörn þeirra inni í teig var slöpp. Heimamenn gera ágætlega að koma til baka á lokamínútunum og er munurinn aðeins sex stig þegar um mínúta er eftir, 80-86. Lengra komast þeir þó ekki. Að lokum vinnur ÍR leikinn nokkuð þægilega, 81-90.
Atkvæðamestir
Fyrir Keflavík voru atkvæðamestir Igor Maric með 17 stig, 6 fráköst og Sigurður Pétursson með 12 stig og 4 fráköst.
Fyrir gestina úr Breiðholti var það Jacob Falko sem dró vagninn með 25 stigum, 5 fráköstum og 8 stoðsendingum. Honum næstur var Dani Koljanin með 18 stig og 3 fráköst.
Hvað svo?
Keflavík á leik næst komandi fimmtudag 13. febrúar gegn Haukum í Ólafssal. ÍR leikur næst degi seinna gegn Njarðvík heima í Skógarseli föstudag 14. febrúar.