spot_img
HomeNeðri deildir2. deild karlaÍA byrjar tímabilið á sterkum sigri

ÍA byrjar tímabilið á sterkum sigri

Skagamenn tóku á móti b-liði Valsmanna í Brimgarðinum á Akranesi nú í dag.  Valsmenn voru að leika sinn annan leik á tímabilinu en liðið hafði sigrað b-lið Fjölnis í sínum fyrsta leik.  Skagamenn voru hins vegar að mæta í sitt fyrsta verkefni þetta tímabilið.

Fyrir leikinn voru stuðlarnir sennilega Val í hag.  Liðið sat i 2. sæti deildarinnar þegar flautað var af á síðasta tímabili á meðan ÍA var í 10. sæti.  En eins og svo oft áður þá er það núið sem ræður ferðinni.

Leikurinn var fínasta skemmtun, liðin voru aldrei langt frá hvort öðru í stigaskorun en gestirnir leiddu með tveimur stigum í hálfleik. Heimamenn mætu einbeittir til leik í seinni hálfleik og lönduðu á endanum virkilega sterkum 6 stiga sigri, lokatölur á Vesturgötunni á Akranesi 99-93 fyrir ÍA.


Sigurinn í dag var liðssigur ÍA.  Alls skoruðu fimm leikmenn 10 stig eða meira í leiknum en Aron Elvar Dagsson var stigahæstur í dag með 22 stig.  Chaz kom svo með 19 stig auk fjölda stoðsendinga, Will var svo með 18 stig en hann lenti í villuvandræðum og hvíldi mikið í 3. og 4. leikhluta.  En það kom ekki að sök þar sem aðrir liðsmenn stigu upp og var barátta Þorleifs Balvinssonar þar olía á eldinn fyrir hina.


Hjá Valsmönnum var Oddur Pétursson lang fremstur meðal jafningja en kappinn var lang stigahæstur á vellinum með hvorki meira né minna en 40 stig.  Egill Agnarsson átti flotta innkomu í fyrri hálfleik en náði ekki alveg að fylgja henni eftir í þeim seinni en endaði næst stigahæstur hjá Val með 23 stig.


Valsarar fóru frekar illa af ráði sínu af vítalínunni og þá sérstaklega í 4. leikhluta og geta nagað sig í handabökin að hafa ekki nýtt vítin sín betur.
Vörn ÍA sló Valsmenn nokkurum sinnum útaf laginu og fengu Skagamenn nokkar mjög auðveldar körfur í leiknum eftir að hafa unnið boltann. 
Þannig að til að taka þetta saman þá var það liðsheild heimamanna, pressuvörnin – þegar hún virkaði, og töpuð vítaskot gestanna sem skildu liðin að í lokin.

Umfjöllun / Hannibal Hauksson

Fréttir
- Auglýsing -