16:00
{mosimage}
Það er jafnan gaman að lesa netmiðilinn „karfan.is“ og geri ég það reglulega. Auðvitað finnst mér skemmtilegast að fylgjast með skrifum um „mína menn“, eins og gildir sjálfsagt um flesta áhugamenn um íþróttir almennt séð. Það er full ástæða til að hrósa ábyrgðarmönnunum, þeir hafa lyft umræðu um körfuboltann á nýtt og hærra plan, sem kki.is hefur ekki komist á, enda er þar um að ræða „opinberan vef“ sem ekki getur fjallað um mál með eins óformlegum hætti, og verður að halda sig innan ákveðinna marka, sem karfan.is þarf ekki að hafa áhyggjur af. Til hamingju, Jón Björn, Rúnar og félagar, með ykkar starf.
Þó verð ég að segja að stundum stingur framsetning máls í augu, bæði málfar og stafsetning. Finnst mér að nú ættu „pennar“ sem hér véla um lyklaborð að setja sér það áramótaheit að auka metnaðinn og gera þær sjálfsögðu kröfur til sín að skrifa rétt mál, og helst líka fallegt. En það eru sjálfsagt skiptar skoðanir á þessu.
Eitt af því sem mér finnst einna skemmtilegast á „karfan.is“ eru pistlar Kristins Óskarssonar um dómgæslu. Bæði eru pistlarnir skemmtilega skrifaðir og varpa oft nýju og skýru ljósi á viðfangsefnið. Þeir eru settir upp á röklegan, einfaldan og skýran hátt, byggingin markviss með kynningu, umfjöllun og niðurstöðum, allt eins og best verður á kosið. Takk, Kristinn, fyrir framtakið. Dómgæslan og opin umfjöllun um hana er þörf. Sem betur fer hefur dómgæsla stórbatnað undanfarin ár og nú eru nokkrir afburða góðir dómarar „á fjölunum“ og nokkrir til viðbótar efnilegir. Pistlar Kristins eru til þess fallnir að auka skilning og „vitræna“ umræðu um dómgæslu. Okkur, sem erum stundum „með mótbárur“, eins og Kristinn orðar það svo skemmtilega og kurteislega, veitir ekki af að fá að skyggnast inn í hugarheim dómaranna. Til þess eru pistlar Kristins afar heppilegir.
Getraun Kristins, sem nýlokið er, um atvik í leik Njarðvíkur og Þórs Akureyri, var skemmtileg. Ekki tók ég þátt í leiknum sjálfur en fannst líklegast að ekki væri um brot að ræða þar sem leiktíminn var liðinn þegar meint leikbrot átti sér stað, án þess þó að leita mér staðfestingar á því í reglunum. Hinsvegar get ég alveg viðurkennt að líklegast hefði ég sýnt einhverjar minniháttar „mótbárur“ ef atvikið hefði átt sér stað í Iðu, gegn leikmanni FSu. !!
En tilefni þessara skrifa var einmitt síðasti pistill Kristins, þar sem hann fór yfir úrlausn „prófsins“. Þar var eitt atriði sem ég er algerlega ósammála Kristni um. Kristinn segir eitthvað á þá leið að það sé minniháttar atvik og ekki tilefni til óíþróttamannslegrar villu „ef einn leikmaður rekst á annan í hurðinni á leið til búningsherbergja.“ Atvik af þessu tagi finnst mér að hljóti að kalla á óíþróttamannslega villu, jafnvel lögreglurannsókn. Ef tveir menn rekast hvor á annan „í hurðinni“, þá eru þeir örugglega alveg dýrvitlausir, búnir að brjóta hurðina í spað, og væntanlega í slagsmálum í gatinu! Þeir hafa því gerst sekir um yfirgengilega hegðun, skemmdir á eignum og þar að auki væntanlega slasaðir, amk. á höndum og fótum.
Vil ég því varpa þeirri spurningu til Kristins hvort dómarar muni virkilega láta það afskiptalaust ef leikmenn brjóta hurðir til að komast til búningsherbergja, í stað þess að opna og ganga í gegnum dyrnar?:)
Bestu áramótakveðjur til alls körfuknattleiksáhugafólks, og þakkir fyrir skemmtilegan körfuboltavef.
Gylfi Þorkelsson
Mynd: www.xs.is