Tveir stærstu bitar frjálsa leikmannamarkaðarins þetta sumarið, Kawhi Leonard hjá LA Clippers og Chris Paul hjá Phoenix Suns, munu líklega hafna því að taka síðustu ár samningum sínum við félögin og geta þar með rætt við og samið við hvaða lið sem er eftir að markaðurinn opnar komandi föstudag 6. ágúst. Síðasta ár samnings Leonard við Clippers er fyrir 50 miljónir $ og síðasta ár samnings Paul við Suns 44 miljónir $.
Það að þeir hafi sagt upp samningum sínum þarf þó ekki að vera nein vísbending um að þeir séu neitt á förum frá sínum liðum. Talið er líklegt að aldraður Chris Paul sé einfaldlega að gera nýjan samning við Suns til næstu þriggja ára, sem muni færa honum meira í vasann í heildina heldur en þetta síðasta ár af fyrri samning hefði gert. Talið er að þessi þriggja ára samningur verði í kringum 90-100 miljónir $ í heild. Paul átti stórgott tímabil með Suns sem enduðu ofarlega í deildarkeppninni og fóru síðan nokkuð örugglega í gegnum meiðslahrjáð Vestrið alla leið lokaúrslit úrslitakeppninnar þar sem þeir töpuðu fyrir Milwaukee Bucks og talið er að hann muni hamra það járn á meðan það er heitt og fá góðan samning frá Suns að launum.
Öllu meiri óvissa er með framtíð Kawhi Leonard hjá LA Clippers. Leondard er með rifið krossband og verður líklega frá mikinn hluta af næsta tímabili. Saga hans í gegnum árin hefur verið nokkuð óútreiknanleg og því eru sérfræðingar ekki tilbúnir að spá eins mikið fyrir um hvað hann muni gera. Líklegast er þó, eins og með aðra leikmenn af hans kalíberi, að hann verði áfram hjá sínu liði. Hvort hann muni gera max samning við Clippers til næstu fjögurra ára fyrir 172 miljónir $ eða hvort hann hætti við að segja upp samning, taki þetta síðasta ár núverandi samnings og geri max samning ofaná, þá í heild 5 ár 218 miljónir $ eru í þeim skilningi bæði nefndar sem líklegar niðurstöður.