18:03
{mosimage}
Flestir körfuknattleiksunnendur á Íslandi gráta það sárt að Evrópumótið á Spáni er ekki sýnt í íslensku sjónvarpi. Ísland er því meðal þjóða eins og Hvíta Rússland, Moldavía, Vatíkanið, San Marino, Bretland, Holland og Írland sem eru þær þjóðir í Evrópu sem ekki sýna frá mótinu, en 115 þjóðir í heiminum sýna frá mótinu.
Undirritaður má þó til með að geta þess að hann hefur tækifæri til að fylgjast með mótinu í dönsku sjónvarpi og vægt til orða tekið þá er stórkostlegt að fylgjast með þessu móti. Það er þó rétt að benda Íslendingum á að hægt er að kaupa aðgang að öllum leikjum mótsins í gegnum heimasíðu þess. Þetta kostar litla 20 dollara sem eru 1280 íslenskar krónur á gengi dagsins.
En karfan.is setti sig í samband við þær tvær sjónvarpsstöðvar sem hafa verið að sýna beint frá íþróttaviðburðum og spurði forsvarsmenn þeirra afhverju ekki væri verið að sýna EM á þeirra stöðvum.
{mosimage}
Fyrst Hrafnkell Kristjánsson íþróttastjóri hjá RÚV.
Mun RÚV sýna eitthvað frá Evrópumótinu í körfubolta?
Nei, RÚV mun ekki sýna beint frá keppninni að þessu sinni.
Hvers vegna? Var eitthvað reynt?
Við ræddum við rétthafann um sýningar eins og fyrri ár, en í ljósi fjárhagsstöðu íþróttadeildar var ákveðið að taka ekki boði þeirra um sýningar frá mótinu nú.
Nú sýndi RÚV oft frá þessu móti hér áður fyrr, hvað hefur breyst?
Nú í haust var tekin ákvörðun um að sinna landsliðunum okkar eftir bestu getu, leikir voru sýndir beint og óbeint auk samantektar úr einum leik. Kvennalandsliðið var í beinni útsendingu í fyrsta skipti m.a. og einnig var í fyrsta sinn sýnt beint frá leik karlalandsliðsins á erlendri grundu. Þá var einnig farið af stað með að sýna frá kvennalandsliðinu í fótbolta meira en áður hefur verið gert, m.a. með því að sýna leik í Slóveníu. Þær útsendingar voru ekki á fjárhagsáætlun okkar og þal hefur þurft að skera niður annars staðar og Evrópumótið í körfu er eitt þeirra verkefna sem urðu að lúta í lægra haldi nú. Einhverjir spyrja sig þá hvers vegna sé sýnt frá sambærilegum mótum í öðrum íþróttagreinum? Í handbolta er íslenska landsliðið jafnan á meðal þátttökuþjóða og því afar eðlilegt að því sé sinnt. Sama má segja um frjálsar íþróttir og sund þar sem Íslendingar eiga yfirleitt einn eða fleiri fulltrúa. Evrópumót og heimsmeistaramót í fótbolta eru einfaldlega það stórir viðburðir að eðlilegt þykir líka að sýna frá þeim þó Ísland sé þar ekki á meðal keppnisþjóða. Í þeim tilvikum sem stórmót í öðrum íþróttagreinum eru á dagskrá þá er um langtímasamninga að ræða þar sem samið er um fleiri en eitt mót í einu. Þó Evrópumót í körfubolta sé stórviðburður í þeirri grein þá rúmaðist það ekki innan okkar fjárhagsramma nú. Áherslan hefur frekar verið á íslenska íþróttamenn og íslensku landsliðin.
{mosimage}
Hilmar Björnsson sjónvarpsstjóri Sýnar sagði:
Við tókum ákvörðun að sýna ekki frá mótinu í þetta skiptið. Það er mikið í gangi á Sýn og Sýn 2 þessa dagana og þrátt fyrir að EM í körfu er klárlega áhugavert efni þá getum við ekki verið á öllum stöðum í einu og verðum stundum að velja og hafna. Karfan.is þakkar þessum tveimur heiðursmönnum fyrir svörin þó við séum vissulega ekki sáttir við að Íslendingar fái ekki að njóta þeirrar snilldar sem fer fram á Spáni.